Innlent

Margir neyðast til að greiða af tveimur íbúðum

Gift móðir þriggja barna hefur ítrekað leitað til Landsbankans til að fá verðtryggt húsnæðislán fryst - nú síðast eftir að hún fékk uppsagnarbréf frá vinnuveitanda sínum. Svör bankans eru skýr: Við getum ekkert gert. Hundruð fjölskyldna eru að lenda í fjárhagserfiðleikum vegna sölutregðu á fasteignamarkaði.

Sjötíu prósenta samdráttur hefur orðið í fasteignasölu á Íslandi á þessu ári. Því má ætla að stór hópur fólks hafi lent í þeirri klemmu að vera búin að kaupa nýja eign - en ekki tekist að selja þá gömlu. Og greiða því af tveimur íbúðum.

Hjá Íbúðalánasjóði hefur verið óskað eftir frystingu á lánum á 300 íbúðum vegna sölutregðu eldri eigna. Umsóknum fjölgar með hverjum deginum. Formaður fasteignasala slær á að milli 2 og 3 þúsund fjölskyldur geti verið í þessari stöðu.

Ein af þessum fjölskyldum leitaði til Fréttastofu í dag. Konan og eiginmaður hennar eru fullu starfi með 3 unglinga. Þau ákváðu fyrir sléttu ári að stækka við sig, kaupa hús á 60 milljónir, en kljúfa greiðslubyrðina með því að leigja frá sér hluta af nýja húsinu. Við þetta átti greiðslubyrðin að léttast.

En síðan gekk ekkert að selja gömlu íbúðina. Þau fengu leigjendur, sem ekki stóðu í skilum. Konan fékk uppsagnarbréf í vikunni. Verðbólgan á þessu eina ári hefur hækkað lán íbúðanna vel yfir tíu milljónir króna. Forsendur útreikninganna heima í stofu - sem lofuðu svo góðu fyrir sléttu ári eru brostnar.

En fjölskyldan tók ekki myntkörfulán og fær því enga fyrirgreiðslu eða frystingu hjá bankanum. Fréttastofa fékk afrit af tölvupósti frá starfsmanni Landsbankans sem barst konunni í gær:

Leitt að heyra að þú hafir misst vinnuna. En því miður er sama svarið og fyrr að ekkert er hægt að gera við þessi íbúðalán hjá okkur þ.e engin frysting í boði.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×