Innlent

Ökumaður í reykfylltum kannabisbíl sýknaður

Hæstiréttur
Hæstiréttur
Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm héraðsdóms yfir karlmanni sem hafði verið ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákæruvaldið taldi manninn hafa sýnt af sér saknæma og refsiverða háttsemi er hann ók bifreið í umrætt skipti eftir að hafa neytt fíkniefna með óbeinum reykingum nóttina fyrir hið meinta brot. Þá sat hann í lokaðri bifreið í allt að hálfa klukkustund á meðan aðrir, sem voru í bifreiðinni, neyttu þar kannabisefnis með reykingum.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ekki kæmi til refsiábyrgðar nema uppfyllt væru skilyrði grunnreglunnar um saknæmi. Maðurinn bar því við fyrir héraðsdómi að hann hefði ekki áttað sig á því að vera hans í bifreiðinni þar sem aðrir reyktu kannabisefni gæti leitt til þess að reykurinn hefði áhrif á líkamskerfi hans.

Þá kvað dósent í eiturefnafræði fyrir héraðsdómi að hann gæti ekki fullyrt hvort dvöl við mjög háan styrk kannabisefnis í andrúmslofti í 15 til 20 mínútur væri nægjanleg til að efni fyndust í þvagi.

Því taldi Hæstiréttur ekki sannað að maðurinn hefði vitað eða mátt vita að dvöl hans í bifreið þar sem neytt var kannabisefnis með reykingum leiddi til þess að í þvagi hans yrðu leifar ávana- og fíkniefna um hálfum sólarhring síðar. Var akstur hans á þeim tíma, því ekki talinn honum saknæmur. Því var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sýkna bæri manninn staðfest.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×