Skoðun

Aftur til ársins 2007

Sævar Freyr Þráinsson skrifar

Verði frumvarp til nauðasamninga Teymis samþykkt mun eiga sér stað alvarlegur markaðsbrestur á einum mikilvægasta samkeppnismarkaði landsins, fjarskiptamarkaði. Frumvarpið gerir ráð fyrir að skuldir Teymis, Vodafone, Kögunar, Skýrr og fleiri dóttur­félaga verði skrifaðar niður um 30 milljarða króna og ekki verði byrjað að greiða afborganir af þeim lánum sem eftir standa fyrr en á árinu 2011.

Í blönduðu hagkerfi, þar sem jafnræði skal ríkja á markaði, er algerlega nauðsynlegt að leikreglur séu skýrar og að eitt gangi yfir alla. Tillögur um stórkostlega fyrir­greiðslu ríkisbanka gagnvart einum aðila á markaði fela augljóslega í sér mismunun gagnvart öðrum.







Rekstur Teymis

Í nóvember 2006 varð til fyrirtækið Teymi og rúmum tveimur árum síðar er Teymi gjaldþrota. Félagið skuldaði um 50 milljarða króna í árslok 2008 og var með neikvætt eigið fé upp á 25 milljarða króna. Á þessu tímabili tóku stjórnendur Teymis fjölmargar afdrifaríkar ákvarðanir.

Vandamál Teymis máttu vera öllum ljós um mitt seinasta ár og hefði mátt forðast mikinn skaða ef gripið hefði verið til ráðstafana þá. Eigið fé félagsins var að brenna upp. Þá var ákveðið að endurmeta virði farsímakerfis Vodafone.

Bókfært virði kerfisins var fært upp um 5,4 milljarða til að styrkja eigið fé, á pappírunum að minnsta kosti. Fyrir þessa fjármuni hefði mátt byggja tvö ný landsdekkandi farsímakerfi! Svona mætti lengi telja en allt ber að sama brunni; Teymi var komið í þrot löngu áður en til hruns íslensks bankakerfis kom.

Eða hvernig öðruvísi getur eigið fé fyrirtækis farið úr því að vera jákvætt um 7,5 milljarða í það að vera neikvætt um 25 milljarða á 8 mánuðum? Ástæðurnar voru ekki hvirfilbyljir á alþjóðlegum lánamörkuðum heldur röð mistaka og rangar ákvarðanir í rekstri félagsins.





Jafnræði?

Tillagan nú er að breyta óheyrilegum skuldum í hlutafé í eigu ríkisbankanna með þeim afleiðingum að dótturfélög Teymis, til dæmis Vodafone, standi eftir, hóflega skuldsett, tilbúin í grimma samkeppni sem aldrei fyrr. Orðrétt segir: „Vaxtagreiðslur hefjast í byrjun árs 2010 en afborganir í byrjun árs 2011. Vegna mikillar óvissu um framvindu í íslensku efnahagslífi og þróun vaxta fela þessi greiðslukjör í sér verulegt svigrúm til greiðslu afborgana og vaxta."

Standa slík kjör öðrum fyrirtækjum til boða eða eiga þau eingöngu við fyrirtæki sem búið er að keyra í þrot? „Óvissa í efnahagslífinu" á að sjálfsögðu við um alla sem starfa á íslenskum markaði og víst að allir tækju fegins hendi tilboði frá banka um „verulegt svigrúm". Tökum dæmi af Símanum og Skiptum. Þessi fyrirtæki hafa alltaf greitt af sínum lánum og keypt gengis­varnir. Þegar harðna fór á dalnum var gripið til viðamikilla og erfiðra aðhaldsaðgerða í rekstrinum; starfsfólk tók á sig launalækkun, dregið var úr fjárfestingum, endursamið við birgja og svo mætti lengi telja. Niðurstaðan er sú að fyrirtækin hafa staðið storminn af sér og ekkert bendir til annars en að svo verði áfram. Okkar starfsfólk spyr nú: „Til hvers erum við að þessu ef ríkið tekur á sig öll vandamál samkeppnisaðilans svo hann geti haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist?"





Markaðsbrestur

Að kollvarpa markaðnum þannig að þeim sé umbunað sem ekki standa sig er ekki bara ósanngjarnt heldur beinlínis hættulegt fyrir samfélagið til lengri tíma litið. Þessi aðferð gengur þvert á tilmæli Samkeppniseftirlits í áliti nr. 3 frá 2008 um að fyrirtækjum sé ekki mismunað með ómálefnalegum hætti auk þess sem erfitt er að sjá hvernig hún getur samræmst ríkisstyrkjareglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Sé það ætlun ríkisbankanna að skrifa niður skuldir fyrirtækja sem hafa keyrt sig í þrot til þess að þau haldi áfram rekstri er það lágmarkskrafa að horft sé til annarra fyrirtækja á viðkomandi mörkuðum. Verði skuldir Teymis skrifaðar niður með þessum hætti hverfur Teymi aftur til ársins 2007, sömu stjórnendur en verulega lægri skuldir en þá. Vandinn er sá að það er komið árið 2009 hjá okkur hinum.

Höfundur er forstjóri Símans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×