Innlent

Loftrýmisgæslu verði hætt

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Vinstri grænna.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Vinstri grænna. Mynd/Valgarður

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að leggja eigi niður Varnarmálastofnun um áramótin. Í fjárlögum næsta árs eigi að vera skýrt hvaða verkefni hennar verði lögð niður og hvert hin verði færð. Árni Þór vill leggja loftrýmis­gæslu niður.

„Mín skoðun er sú að það eigi að klára þetta ár. Ef við teljum að einhverjum verkefnum þurfi að sinna áfram komum við þeim fyrir annars staðar. Í fjárlagafrumvarpinu á stefnan að koma fram og það er stefna ríkisstjórnarinnar að leggja Varnarmálastofnun niður."

Stofnunin auglýsti nýverið tvær stöður lausar til umsóknar, meðal annars umsjón með mannvirkjum. Georg E. Friðriksson, sviðsstjóri mannvirkjasviðs, segir fastráðna starfsmenn 54, en að auki séu nokkrir í tímabundnum verkefnum. Heildarstarfsmannafjöldi í sumar er 68.

„Það kemur mér mjög á óvart ef stofnunin er að færa út kvíarnar, því það er yfirlýst stefna stjórnarinnar að starfsemi Varnarmálastofnunar verði hætt. Það er í gangi skoðun hvort verkefni sem þar eru megi sameina annarri starfsemi og öðrum verkefnum," segir Árni.

„Það kann vel að vera að einhverjum verkefnum megi koma fyrir annars staðar, en svo eru þarna áreiðanlega líka verkefni sem má bara leggja niður og óþarfi er að við sinnum.

Hugmyndin í umræðum um að leggja starfsemina niður var sú, að það væri óþarfi fyrir okkur að vera í þessu hernaðarbrölti almennt, hvað þá í því efnahagsástandi sem nú ríkir." Loftrýmisgæsla hefst á ný 6. ágúst en hana annast um 140 bandarískir hermenn, en áður hafa meðal annars Norðmenn og Frakkar sinnt henni. Árni Þór segir að klára verði gerða samninga. Hann telji þetta þó óþarft.

„Það mat mitt er stutt niðurstöðu nefndar sem vann áhættumat fyrir Ísland. Vel má vera að loftrýmisgæslan þjóni hagsmunum Atlantshafsbandalagsins, en hún er ekki nauðsynleg fyrir öryggi Íslands."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×