Innlent

Fangar skiluðu þvagsýni

Leitað var hátt og lágt að ólöglegum efnum á Kvíabryggju í gær.
Leitað var hátt og lágt að ólöglegum efnum á Kvíabryggju í gær.
Fjölmennt lið fór í allsherjarleit, þar á meðal að fíkniefnum og sterum, í fangelsinu á Kvíabryggju í gær. Leitin stóð í allan gærdag. Tilefni hennar var að kanna almennt ástand mála í fangelsinu. Þar höfðu sterar og tól til að nota þá fundist fyrir nokkru, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, vildi ekki tjá sig um árangur leitarinnar þegar Fréttablaðið leitaði eftir því í gærkvöld. Hann sagði þó að alltaf mætti búast við að gerð yrði slík hefðbundin leit í fangelsum ríkisins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leitaði tæplega tuttugu manna hópur fangavarða og lögreglu í fangelsinu öllu, bæði klefum og sameiginlegum rýmum. Þá voru tveir fíkniefnahundar notaðir við leitina. Þá var öllum föngum gert að skila þvagsýni til að athuga hvort þeir hefðu notað ólögleg efni.

Spurður hvað gerðist ef menn, vistaðir í opnu fangelsi, yrðu uppvísir að neyslu ólöglegra efna sagði Páll að sá sem gerðist sekur um agabrot yrði að líkindum fluttur í lokað fangelsi. „Tilgangur þessa er að halda uppi öryggi í fangelsinu,“ segir Páll.- jss


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×