Innlent

Femínistar vilja vitnavernd og lokun súlustaða

Femínistafélag Íslands krefst þess að súlustaðir verði lokaðir og að fórnalamba- og vitnavernd verði innleidd í íslensk lög í samræmi við alþjóðasamninga og að aðgerðaráætlun gegn mansali verði hrint í framkvæmd strax samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Tilefni tilkynningarinnar er óhugnanlegt mansals mál litháískrar stúlku sem kom upp í síðustu viku. Fullyrt er í tilkynningu Femínistafélagsins að tengslin á milli súludansstaða, vændis og mansals séu löngu sönnuð. Á Íslandi sé því augljóslega þeir innviðir og tengslanet fyrir hendi sem mynda grundvöll fyrir mansalsmál að mati Femínistafélagsins.

Lesa má tilkynninguna í heild sinni hér fyrir neðan:

Nauðungarflutningur og hvarf ungrar konu af erlendum uppruna hefur verið á forsíðum fjölmiðla undanfarna daga. Ljóst þykir að um mansal er að ræða þ.e. að ætlunin hafi verið að selja konuna í vændi. Samlandar konunnar hafa sætt gæsluvarðhaldi og tengsl málsins við glæpaklíku þykja sönnuð.

Fyrir stuttu síðan var í fyrsta sinn leiddur fyrir dómstóla aðili sem grunaður er um að stýra mansali á Íslandi. Í því máli er einnig um unga konu ef erlendum uppruna að ræða.

Sérfræðingar í þessum málaflokki hafa ítrekað bent á að þau mál sem sem rata upp á yfirborðið séu einungis brotabrot af þeim fjölda mansalsmála sem eiga sér stað, óáreitt.

Tengslin á milli súludansstaða, vændis og mansals eru löngu sönnuð. Á Íslandi eru því augljóslega þeir innviðir og tengslanet fyrir hendi sem mynda grundvöll fyrir mansalsmál.

Femínistafélag Ísland skorar á stjórnvöld að hefja markvissar aðgerðir gegn mansali og vændi nú þegar. Femínistafélagið krefst lokunar súlustaða, að fórnarlamba- og vitnavernd verði innleidd í samræmi við aðþjóðasamninga og að aðgerðaráætlun gegn mansali verði hrint í framkvæmd strax.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×