Innlent

Jólamaturinn gerður upptækur á Þingvöllum

Jólamaturinn var gerður upptækur hjá tveimur rjúpnaskyttum í gær þegar þær voru staðnar að ólöglegum veiðum innan þjóðgarðsins á Þingvöllum.

Þegar lögreglan á Selfossi hafði afskipti af mönnunum höfðu þeir þegar veitt sjö eða átta rjúpur. Veiðar innan þjóðgarðsins eru stranglega bannaðar. Fengurinn var því gerður upptækur svo og skotvopn veiðimannanna.

Mennirnir sögðust ekki hafa gert sér grein fyrir að þeir væru innan þjóðgarðsins. Lögreglan taldi að þeim ætti að vera það fyllilega ljóst þar sem bíll þeirra var við Botnsúlur sem innan þjóðgarðsins. Fyrir utan að missa skotvopnin og rjúpurnar eiga skytturnar yfir höfði sér sekt og geta jafnvel misst byssuleyfin.

Rjúpnaveiðitímabilið í ár hófst um síðustu helgi og stendur fram í fyrstu vikuna í desember. Lögregla hefur eftirlit með rjúpnaskyttum á meðan á veiðunum stendur. Lögreglan á Selfossi naut í gær aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem var í æfingaflugi, við eftirlit með skyttunum. Alls hafði hún afskipti af tólf skyttum. Tvær af skyttunum voru ekki með veiðikortin meðferðis og voru vopnin því tekin af þeim.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×