Innlent

Menningarverðlaun DV afhent

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jórunn Viðar fékk heiðursverlaunin. Mynd/ DV.
Jórunn Viðar fékk heiðursverlaunin. Mynd/ DV.
Fyrr í kvöld fór fram afhending Menningarverðlauna DV fyrir árið 2009. Menningarverðlaun DV eru árlegur viðburður þar sem veitt eru verðlaun fyrir einstakt framlag einstaklinga til menningarinnar, að mati dómnefndar í hverjum flokki. Að auki voru veitt netverðlaun og sérstök heiðursverðlaun sem forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti.



Sigurvegarar:

FRÆÐI - FORNLEIFASTOFNUN ÍSLANDS OG GAVIN LUCAS

- Fyrir Hofstaðaverkefnið og bókina Hofstadir, Excavations of a Viking Age Feasting-hall.

Að mati dómnefndar er um afar vandaða rannsókn að ræða sem hefur skilað að mörgu leyti nýjum og nýstárlegum niðurstöðum um byggð á Íslandi á landnámsöld.

BYGGINGARLIST - HALLDÓRA ARNARDÓTTIR OG PÉTUR H. ÁRMANNSSON

- Fyrir bókina um Manfreð Vilhjálmsson arkitekt.

Að mati dómnefndar er verkið allt hið vandaðasta og unnið af stakri fagmennsku og alúð. Bókin er löngu tímabært yfirlit yfir verk Manfreðs Vilhjálmssonar frá rúmlega hálfrar aldar starfsferli.

TÓNLIST - DANÍEL BJARNASON

- Fyrir fjölbreyttan árangur sinn á tónlistarsviðinu árið 2009.

Að mati dómnefndar á Daníel skilið verðlaunin fyrir glæsilegan árangur sinn í tónsmíðum og hljómsveitarstjórn á síðastliðnu ári þar sem hann m.a. stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands, sá um tónlistarstjórn í sýningu Íslensku óperunnar og tók upp og útsetti verk hinna ýmsu listamanna.

HÖNNUN - HÖNNUNARHÓPURINN VÍK PRJÓNSDÓTTIR

- Fyrir hönnun á framleiðslu fyrir verksmiðju Víkurprjóns.

Að mati dómnefndar sameinar hópurinn hugvit og framsýni því sem þau hafa að leiðarljósi, að nýta þekkingu og vélakost Víkurprjóns og skapa þannig frábærar vörur.

LEIKLIST - BENEDIKT ERLINGSSON, BERGUR ÞÓR INGÓLFSSON OG HALLDÓRA GEIRHARÐSDÓTTIR

- Fyrir sýninguna Jesúm litla.

Að mati dómnefndar hafa þau Benedikt, Bergur og Halldóra kveikt nýjan áhuga á trúðleik hér á landi og skapað honum áður óþekktan sess innan íslensks leikhúss. Þetta starf þeirra hefur sjaldan borið betri ávöxt en í sýningunni Jesú litla.

MYNDLIST - LISTASAFN REYKJAVÍKUR

- Fyrir sýningaröð í D-sal Hafnarhúss.

Að mati dómnefndar hefur sýningaröð ungra og efnilegra myndlistarmanna í D-sal Hafnarhússins, sem hleypt var af stokkunum árið 2007, heppnast ákaflega vel og verið lyftistöng fyrir unga listamenn og myndlistarlífið í landinu yfirleitt.

KVIKMYNDIR - ÞÓRUNN HAFSTAÐ

- Fyrir heimildarmyndina Íslensk alþýða.

Að mati dómnefndar er áherslan í Íslenskri alþýðu bæði skemmtileg og nýstárleg, smáatriði opinbera óvæntar hliðar og hið ofur hvunndagslega reynist áhugaverðara en áhorfandinn ætlar.

BÓKMENNTIR - KRISTJÁN ÁRNASON

- Fyrir þýðingu sína á Ummyndunum Óvíds.

Að mati dómnefndar hefur Kristján skilað þýðingu sem nautn er að lesa og flytur nútímalesendur í goðsagnaheim fornaldar, bæði með þýðingu sinni og greinagóðum inngangi.

VAL LESENDA - HLJÓMSVEITIN HJÁLMAR

- Hljómsveitin Hjálmar var tilnefnd í tónlistarflokki Menningarverðlauna DV 2009 fyrir árangur sinn á sl. ári.

Í umsögn dómnefndar segir m.a. að Hjálmar hafi verið að gera frábæra hluti í mörg ár og virðist bara bæta sig. Platan IV kom út 2009 og var að margra mati besta plata ársins. Sveitin hélt einnig fjölda tónleika á árinu og tók þátt í stofnun útgáfufyrirtækisins Borgin sem hefur að leiðarljósi að bæta hlut tónlistarmanna.

HEIÐURSVERÐLAUN - JÓRUNN VIÐAR

- Heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV árið 2009 fær Jórunn Viðar, tónskáld og píanóleikari, fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.

Framlag Jórunnar verður seint metið að verðleikum, ekki síst fyrir þátt hennar í að ryðja veg íslenskra kvenna í tónlistarsköpun, á flutningi og útsetningum á tónlist, á ferli sem spannar um sjö áratugi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×