Skoðun

Njörður Njarðvík: Ný stjórnarskrá - nýtt lýðveldi

Njörður Njarðvík skrifar

Nú er liðið á annað ár síðan ég vakti athygli á nauðsyn þess að stofna nýtt lýðveldi á Íslandi með alveg nýrri stjórnarskrá (fyrst í Silfri Egils 11.1.2009 og svo í grein í Fréttablaðinu 14.1.2009), - og benti á fordæmi Frakka. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis staðfestir nú hversu hörmulega er komið fyrir okkur sem þjóð. Í raun og veru má segja, að bankahrunið (fjármálakreppan) sé ekki alvarlegast, heldur hrun traustsins. Allt brást. Spillingin hefur verið svo yfirgengileg, að okkur datt ekki í hug að svo gæti verið. Og nú þegar þetta hefur verið birt okkur áþreifanlega og opinberlega á ábyrgan hátt, treystir þjóðin hvorki stjórnvöldum né eftirlitsstofnunum: ekki Alþingi, ekki ríkisstjórn, ekki forseta Íslands. Þar með er stjórnkerfið, sjálft lýðveldið í raun hrunið. Nú ætti að blasa við öllum hugsandi mönnum, að við getum ekki haldið áfram á sömu braut. Við verðum blátt áfram að hugsa grundvöll tilveru þjóðarinnar upp á nýtt. Það verður ekki gert með neinni sýndarmennsku, smáskammtalækningum eða pólitískum heftiplástri. Þegar stjórnmálamenn bregðast, verður þjóðin sjálf að taka í taumana.

Þess vegna er okkur nú lífsnauðsyn að kjósa stjórnlagaþing sem allra fyrst. Ekki til að lappa upp á gallaða stjórnarskrá, heldur til að semja nýja, alveg frá byrjun. Það eru einu skynsamlegu viðbrögðin. Það var gert í Þýskalandi eftir hrun nasismans, það var gert í Suður-Afríku þegar mannfjandsamleg kynþáttastefna beið loks ósigur. Og það þurfum við að gera í okkar ósigri eftir hrun hinnar ómanneskjulegu frjálshyggju. Það er eina leið okkar til að endurheimta reisn okkar sem þjóð og orðstír okkar meðal annarra þjóða. Til þessa stjórnlagaþings verður að vanda sérstaklega. Þar má enginn þingmaður sitja, enda má segja að þeir beri ansi margir mikla ábyrgð á því hvernig komið er og séu því hluti af vandanum.

Þótt við blasi ýmsir þættir sem taka verður á í nýrri stjórnarskrá, eins og til dæmis hrein aðgreining hins þrískipta valds, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, þá er fjölmargt annað sem þarf að huga að vandlega. Það verður því vandasamt hlutverk sem væntanlegu stjórnlagaþingi er falið. Þess vegna þarf þjóðin að vera árvökul þegar hún velur sér fulltrúa til þessa erfiða og flókna verkefnis sem svo mikið veltur á fyrir framtíð okkar. Brýnt er að ekkert verði ógert látið til þess að stjórnlagaþingið takist vel og skili þjóðinni vandaðri stjórnarskrá til góðrar leiðsagnar til nýrrar og betri framtíðar.

Þeir brugðust sem síst skyldi og trúað var fyrir þjóðargæslu, hvorki meira né minna. Þeim mun ekki veitast auðvelt að ávinna sér traust. En sem betur fer á þjóð okkar fjölda góðra og vandaðra manna og kvenna sem er vel fær um að varða nýjan veg út úr öskuþoku gróðahyggjunnar. Margt af því fólki mun ekki trana sér fram, en það þurfum við nú að finna og leiða til öndvegis í nýrri endurreisn íslenskrar þjóðar.

Göngum nú einu sinni hreint til verks. Hreinsum rækilega til í rústum þess lýðveldis sem hrundi - og stofnum svo nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×