Erlent

Beresovskí segir Rússa hafa þvegið peninga á Íslandi

Boris Beresovskí.
Boris Beresovskí.

Rússneskir auðmenn hliðhollir Pútín forsætisráðherra Rússlands hafa stundað peningaþvætti á Íslandi og í reynd keypt landið með illa fengnu fé sínu. Þetta fullyrðir Boris Beresovskí, landflótta rússneskur auðmaður og svarinn óvinur Pútíns forsætisráðherra Rússlands. Íslensk stjórnvöld vísa þessu á bug.

Landflótta rússneski auðjöfurinn Boris Beresovskí var gestur í þætti viðskiptafréttamannsins Jeff Randall á Sky News fréttastöðinni í gærkvöldi. Þar fullyrti hann að auðmenn í Rússlandi sem væru hliðhollir núverandi ráðamönnum hefðu á undanförnum árum ná til sín umtalsverðu fé í heimalandinu og notað það síðan til fjárfestinga á vesturlöndum. Peningana hefðu þeir notað til að kaupa fjölmörg fyrirtæki.

Tiltók hann þá sérstaklega að Ísland hefði verið notað í þessum tilgangi og sagði áform Rússa um að lána Íslendingum fé vegna bankahrunsins sem dæmi um tilraun þeirra til að þvo illa fengið fé og ná áhrifum í Atlantshafsbandalagsríki. Beresovskí sagði þetta hafa verið vegna þess að Ísland væri ekki í Evrópusambandinu og því giltu ýmsar reglur sambandsins ekki þar.

Í tilkynningu frá íslenska utanríkisráðuneytinu sem lesin var upp í þætti Randall var þessu vísað á bug. Bent var á að lán frá Rússum hefði ekki verið afgreitt og auk þessu giltu allar reglur Evrópusambandsins um fjármagnsflutninga hér.

Beresovskí var til skamms tíma einn ríkasti maður Rússlands en hann var í innstahring meðal ráðamanna og vina Borisar Jeltsíns fyrrverandi Rússlandsforseta. Beresovskí hefur verið í útlegð í Bretlandi síðan 2001 en þar hefur hann fengið pólitískt hæli. Beresovskí flúði eftir að honum og Vladimir Putin fyrrverandi forseta og núverandi forsætisráðherra lenti saman. Auðmaðurinn er eftirlýstur fyrir fjársvik og pólitíska spillingu í heimalandi sínu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×