Handbolti

Björgvin: Var að losna við stóran bakpoka af áhyggjum og veseni

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Björgvin fagnar innilega í dag.
Björgvin fagnar innilega í dag. mynd/vilhelm
Það er óhætt að segja að það hafi þungu verið létt af markverðinum Björgvini Páli Gústavssyni í dag. Hann hefur átt mjög erfitt uppdráttar það sem af er EM en sýndi sitt rétta andlit gegn Ungverjum í dag. Frammistaða hans átti stóran þátt í sigrinum góða.

"Ég var að rífa af mér risastóran bakpoka sem var fullur af áhyggjum og veseni. Þetta er mikill léttir og það er geggjuð tilfinning að klára svona leik," sagði Björgvin brosmildur.

"Það hafa margir hjálpað mér eins og Einar Þorvarðar. Svo eru strákarnir náttúrulega að spila frábæra vörn í dag. Það hjálpar mér eðlilega mikið."

Björgvin Páll átti einstaklega erfitt uppdráttar eftir leikinn gegn Slóveníu. Um nóttina skrifaði hann síðan blogg þar sem hann lýsti tilfinningum sínum. Bloggið snart við mörgum og Björgvin hefur fengið jákvæða strauma víða að síðan.

"Það er ótrúlegt að finna fyrir þessum stuðningi sem ég er að fá um allt. Ég er að sms, tölvupóst og svo kveðjur á Facebook. Maður finnur vel að allir vilja hjálpa."

Björgvin sagði að það hafi allt verið undir í þessum leik gegn Ungverjum.

"Það er frábært að sjá hvað við mætum klárir í þennan leik. Mótið hefði verið búið ef við hefðum tapað. Þegar við erum tilbúnir og til í slaginn þá er allt mögulegt," sagði Björgvin.

"Við sýndum það í dag að við erum til alls líklegir í framhaldinu og við ætlum að bíta frá okkur. Það er alveg klárt. Við ætlum að njóta þess að spila áfram og ef allt gengur upp getum við gert usla í næstu leikjum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×