Innlent

Brandari af óþekktri stærðargráðu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að það sé brandari af óséðri stærðargráður að ríkisstjórnin hyggist þrýsta á ESB um áframhald IPA styrkja þrátt fyrir að ráðherra hafi líkt þessum styrkjum við mútur

Evrópusambandið ákvað í byrjun desembermánaðar að draga til baka alla IPA-styrki á Íslandi en styrkirnir eru sérstaklega ætlaðir þjóðum sem stefna á inngöngu í sambandið.

Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir í byrjun sumars að hlé yrði gert á aðildarviðræðum um óákveðinn tíma. Ákvörðun ESB um að draga styrkina til baka kom íslenskum stjórnvöldum hins vegar á óvart.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar Alþingis sagði á Sprengisandi á Bylgjunni í gær að íslensk stjórnvöld væru nú að skoða réttarstöðu þeirra stofnana sem hafa fengið loforð um styrki um mögulegar bætur frá ESB vegna samningsrofs.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, furðar sig á þessu.

„Mér finnst það mjög sérkennilegt að ætla að reyna fá með lagaklækjum það sem menn ákváðu að fá ekki með pólitískum ákvörðunum. Ef ríksstjórnin hefði óskað eftir því að haldið yrði áfram samstarfi á grundvelli IPA styrkja eru allar líkur á því að ESB hefði orðið við því. Það var ekki gert af hálfu ríkisstjórnarinnar. Svo er það bara brandari af áður óþekktri stærðargráðu að menn sem hingað til hafa lýst IPA styrkjum sem mútum skuli ætla að beita lagaklækjum til þess að fá að halda áfram að þiggja mútur. Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem mútuþegar reyna að beita lögfræðirökum til þess að þvinga hin illu öfl sem eru að múta þeim til að halda áfram að múta þeim,“ segir Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×