Erlent

Bretar handtaka þá sem gagnrýna múslima

Jóhannes Stefánsson skrifar
Mikil umræða hefur skapast um múslima í Bretlandi í kjölfar morðsins.
Mikil umræða hefur skapast um múslima í Bretlandi í kjölfar morðsins. Mynd/ AFP

Breska lögreglan hefur tekið upp á því að handtaka fólk í skjóli nætur hafi það látið í ljós kynþáttafordóma eða gagnrýni á múslima á Twitter í kjölfar hrottafengna sveðjumorðsins á breskum hermanni í London. Morðingjarnir tveir voru íslamstrúar.

Þrír menn eru í varðhaldi lögreglu eftir að hafa haft uppi óviðurkvæmileg ummæli á Twitter og Facebook.

Árásin átti sér stað í Woolwich. Þar var ekið á Lee Rigby, en hann var trommuleikari í breska hernum. Hann var síðan stunginn og aflimaður á götunni þar sem hann lá í blóði sínu. Í myndbandi sem náðist af árásarmönnunum skömmu eftir árásina sögðu þeir árásina vera til að hefna múslima sem hefðu verið drepnir af breska hernum.

Einn þeirra sem hafa látið gagnrýni falla á samskiptamiðlum hefur verið ákærður fyrir „skaðleg ummæli" á Facebook. Þá hafa tveir aðrir verið handteknir fyrir brot á almannareglulöggjöf, grunaðir um að hafa kynt undir kynþátta- og trúarhatur. Breska lögreglan staðfesti í yfirlýsingu að hún væri að handtaka fólk fyrir ummæli á samskiptamiðlum:

„Mennirnir voru handteknir vegna gruns um brot á almannareglulöggjafar fyrir að hafa kynt undir trúar- eða kynþáttahatur. Rannsókn okkar á ummælum mannanna stendur yfir. Ummælunum var beint gegn hluta samfélags okkar. Ummæli af þessu tagi eru algjörlega óásættanleg og eru til þess fallin að valda meira meiri skaða hér í Bristol. Fólk ætti að hugsa sig um hvað það lætur út úr sér á samfélagsmiðlum vegna þess að afleiðingarnar geta verið alvarlegar," sagði rannsóknarlögreglumaður við breska fjölmiðla.

Handtökurnar eru að undirlagi samtaka breskra múslima, en þau óttast það að viðhorf fólks til þeirra í kjölfar morðsins versni verði ekkert gert vegna ummæla fólks í þeirra garð.

Nánar er fjallað um málið á vef Business Insider.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×