Innlent

Dæla koltvísýringi ofan í jörðina

Þegar lofttegundinni er dælt niður í jörðina breytist hún í stein.
Þegar lofttegundinni er dælt niður í jörðina breytist hún í stein. mynd/Orkuveitan
Niðurdæling á koltvísýringi við Hellisheiðarvirkjun hófst í lok janúar. Hugmyndin er að þessi gróðurhúsalofttegund bindist basalti í hraunlögum neðanjarðar og varðveitist sem steintegund um alla framtíð.

Niðurdælingin er hluti CarbFix-verkefnisins, sem er vísinda- og iðnþróunarverkefni rekið við Hellisheiðarvirkjun. Samstarfsaðilar Orkuveitu Reykjavíkur hafa verið Háskóli Íslands, Columbia-háskóli í Bandaríkjunum og Rannsóknarráð franska ríkisins.

Meginmarkmið CarbFix-verkefnisins eru að auka skilning á því hvað verður um koltvísýring sem dælt er niður í berggrunninn til langs tíma litið, að þróa tækni til að binda koltvísýring varanlega í jarðlögum, og að gefa út og miðla niðurstöðum rannsókna og tilrauna svo þær geti nýst sem víðast.

Markmið verkefnisins er að draga úr umhverfisáhrifum auðlindanýtingar á Hellisheiði. CarbFix-verkefnið hefur notið viðurkenningar meðal annars í formi fjárstyrkja frá bandaríska orkumálaráðuneytinu og GEORG, íslenskum samstarfsvettvangi um jarðhitarannsóknir. Í fyrra fékk verkefnið myndarlegan styrk frá Evrópusambandinu. - shá



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×