Lífið

Draumur Rúna Júl rætist í nýja Popppunktsspilinu

Tónlistarmaðurinn og þúsundþjalasmiðurinn er með mörg járn í eldinum um þessar mundir. fréttablaðið/valli
Tónlistarmaðurinn og þúsundþjalasmiðurinn er með mörg járn í eldinum um þessar mundir. fréttablaðið/valli
Tónlistarmaðurinn og þúsundþjalasmiðurinn Dr. Gunni er með mörg járn í eldinum. Nýtt Popppunktsspil kemur í búðir í októ-ber og framhald bókarinnar Eru ekki allir í stuði? er í bígerð, ásamt nýrri barnaplötu.

Glænýtt Popppunktsspil er í framleiðslu úti í Kína þessa dagana og kemur það í verslanir í október. „Það er miklu flottara en síðasta spil. Þetta verða allt nýjar spurningar, eins og gefur að skilja, og öll hönnunin er ný. Leikurinn verður samt svipað uppbyggður,“ segir höfundurinn Dr. Gunni en spilið er byggt á samnefndum sjónvarpsþáttum. „Það var uppi hugmynd um að vera með lítið sjónvarp inni í spilinu sem átti að henda út um lítinn hótelglugga en það gekk ekki alla leið,“ segir hann og hlær.

Fólk velur sér tónlistarmenn til að komast á milli reita í spilinu og þeir sem verða þess heiðurs aðnjótandi í þetta sinn eru Haffi Haff, Haukur Heiðar úr Diktu, Bjartmar Guðlaugsson, Gylfi Ægisson, Hera Björk, Ingó Veður-guð, Lay Low, Lóa úr FM Belfast og síðast en ekki síst Rúnar Júlíusson. „Hann átti að vera í fyrsta spilinu en svo fyrir undarleg mistök datt hann út. Hann var ekki nógu ánægður með þetta og minntist á það við mig þannig að núna er ég að uppfylla það sem átti að gerast fyrir fimm árum,“ segir Gunni.

Sjöttu þáttaröð Popppunkts lýkur á næstunni með úrslitaþætti milli Skriðjökla og Lights on the Highway, sem verður hundraðasti Popppunktsþátturinn. Fyrst verður þó óhefðbundinn þáttur sem verður keppni milli grínistanna í Fóstbræðrum og Mið-Íslandi á laugardaginn. Spurður hvort Popppunktur haldi áfram næsta vetur segir Gunni það fara eftir því hvað Sjónvarpið vilji. Þeir Felix Bergsson eru til í alla vega eina seríu í viðbót, enda eiga flytjendur á borð við Amiinu, Diktu, Grýlurnar, Todmobile, Þursaflokkinn, Bubba og Megas enn eftir að láta ljós sitt skína.

Gunni er með fleiri bolta á lofti því fram undan eru endurkomutónleikar með gömlu hljómsveitinni hans SH draumi á Iceland Airwaves-hátíðinni 14. október þar sem Ham stígur einnig á svið. Tvöföld viðhafnarútgáfa á plötu sveitarinnar, Goð, frá árinu 1988 kemur út um svipað leyti.

Á næsta ári hyggur Gunni síðan á útgáfu nýrrar tónlistarbókar, framhaldsins á Eru ekki allir í stuði? sem kom út 2001 og hefur verið ófáanleg lengi. Um er að ræða endurbætta og uppfærða rokksögu sem verður töluvert frábrugðin fyrri bókinni. Eitís-kaflinn sem datt fyrir mistök út úr fyrri bókinni verður með í þessari auk þess sem síðustu tíu ár verða að sjálfsögðu með.

Fleiri verkefni eru í bígerð, þar á meðal ný barnaplata sem myndi fylgja eftir vinsældum Abbababb sem kom út 1997. Hugmyndir hafa verið uppi um að gera Abbababb-bíómynd eða setja Abbababb-söngleikinn aftur á svið en Gunni vill frekar horfa fram á veginn og prófa eitthvað nýtt. „Ég nenni ekki að spila Prumpulagið endalaust.“

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×