Innlent

Endaði sársvangur upp á slysó eftir eltingaleik við kött í íbúð sinni

Andri Snær Njarðarson  missti úr vinnu auk þess sem hann þurfti að fara upp á spítala og fá stífkrampasprautu.
Andri Snær Njarðarson missti úr vinnu auk þess sem hann þurfti að fara upp á spítala og fá stífkrampasprautu.
„Ég reyndi að króa köttinn af með Vuvuzela-lúðri sem ég fann hérna inn í stofu, en hann vildi ekki fara út," segir Andri Snær Njarðarson, íbúi í kjallaraíbúð í Múlunum í Reykjavík. Þegar hann kom heim til sín í hádegishléi í vinnu í dag, til að fá sér að borða, heyrði hann bjölluhljóð inn í herbergi hjá sér. Hann áttaði sig fljótlega á því að köttur úr nágrenninu hafði komist inn í íbúðina. Eftir mikinn eltingaleik við köttinn endaði hann á því að bíta og klóra Andra Snæ sem þurfti að fara upp á slysadeild og fá stífkrampasprautu. Kötturinn pissaði í rúmið hans og braut nokkra muni inn í stofu hjá honum.

Læsti kjaftinum á vísifingri

Andri Snær var í dágóðan tíma að elta köttinn til að koma honum út úr íbúðinni. Hann reyndi að fá köttinn til að fara út en hann hljóp alltaf frá honum. Hann fór meðal annars upp á sjónvarpið inn í stofu og braut styttu og kertastjaka. Eltingaleikurinn endaði þó inn í fataskáp hjá Andra. „Ég sé ekki mikið inn í skápinn og teygi höndina í átt að honum og held að ég hafi náð taki á hnakkanum á honum, eins og maður gerir við ketti, þá bítur hann og klórar mig. Læsir kjaftinum á sér á vísifingri vinstri handar, ég er mjög bólginn og rispaður út um allt á hendinni. Ég held að hann hafi áttað sig á því eftir þetta að hann ætti ekki að vera þarna og stökk upp í gluggakistu og fór út," segir Andri Snær en við það brotnaði gardínan í herberginu hjá honum. Andri Snær segir að á gluggum íbúðarinnar séu kattarnet sem eiga að koma í veg fyrir að kettir fari inn í íbúðir. Þau virka því miður ekki sem skyldi.

Þegar kötturinn var farinn út var matarhléið hjá Andra Snæ búið. Hann fór þá aftur í vinnuna en þegar þangað var komið var hann sendur strax upp á slysadeild þar sem höndin á honum var mikið bólgin. „Þar fékk ég stífkrampasprautu og smyrsl á sárin." Hann þurfti að bíða í fimm klukkutíma upp á spítala þar til gert var að sárum hans. „Eina góða við biðina var að það var sjónvarp sem ég gat horft á," segir Andri Snær og hlær.

Finnst sanngjarnt að fá eitthvað borgað

Honum finnst svekkjandi að þurfa að borga kostnaðinn af tjóninu sem kötturinn varð valdur af og auk þess finnst honum leiðinlegt að hafa misst úr vinnu. „Það er allt ónýtt hérna, ef þetta hefði verið hundur hefði löggan komið strax og svæft hann á staðnum. Af hverju eru hundar svæfðir þegar þeir bíta fólk en ekki kettir, ég hef heyrt að það sé miklu meiri sýkingarhætta eftir kattarbit?" Andri Snær missti marga klukkutíma úr vinnu og þurfti að borga 4500 krónur upp á slysadeild. „Ég sé svolítið eftir því að hafa ekki lokað glugganum bara og farið í vinnuna. Komið svo heim og farið í hanska og skoðað heimilisfangið því ég væri alveg til í að reyna tala við eigendurna. Mér finnst það bara sanngjarnt að fá eitthvað borgað á móti eftir allt sem maður lenti í dag," segir Andri Snær sem segir köttinn vera svartan með rauða ól.

Andri gat þó fengið sér að borða þegar hann var búinn upp á slysadeild þar sem enginn tími gafst í það að snæða eins og upphaflega var planið með því að fara heim í hádegishléinu.

Hægt er að sjá myndir af hendinni á Andra hér fyrir neðan.




Tengdar fréttir

Ætlar að berjast fyrir reglum um kattahald

„Nú er bara að bretta upp ermarnar og keyra þetta mál í gegn," segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi. Guðríður hefur í mörg ár barist fyrir reglum um kattahald í bænum og segir nú vera tíma til aðgerða.

Kattafár á Kársnesi: Heimilisfaðir handsamar villikött

Villiköttur braust inn á heimili fjölskyldu í Kópavoginum, áreytti heimilisköttinn og skemmdi innanstokksmuni. Engar reglur eru um kattahald í Kópavoginum og þurfti fjölskyldan sjálf að handsama köttinn og koma á dýraspítala.

Kattafár á Kársnesi: Ófrísk kona bitin og klóruð

„Ég er orðinn frekar ráðalaus, ég er búinn að prófa allt,“ segir Ari Steinarsson íbúi á Kársnesi í Kópavogi. Hann segir farir sínar ekki sléttar af kattaumgangi í íbúð sinni en hann býr á jarðhæð. Undanfarnar þrjár vikur hefur Ari, ásamt ófrískri konu sinni, vaknað að minnsta kosti fjórum sinnum við umgang í köttum í íbúð sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×