Innlent

Erlendir aðilar kanna möguleika fyrir heilsuhótel á Kjalarnesi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Nesvík er fremst fyrir miðju á myndinni. Ofar sést í Vesturlandsveg og byggðina á Kjalarnesi.
Mynd/Google Earth Pro
Nesvík er fremst fyrir miðju á myndinni. Ofar sést í Vesturlandsveg og byggðina á Kjalarnesi. Mynd/Google Earth Pro
 „Það er búið að sigta þennan stað út sem áhugaverðan og þeir hafa aflað sér kaupréttar á honum,“ segir Haraldur Flosi Tryggvason, lögmaður erlendra aðila sem skoða nú byggingu 100 til 200 herbergja heilsuhótels í Nesvík á Kjalarnesi.

Um er að ræða 40 hektara spildu sem Lýsing eignaðist í Nesvík á árinu 2012. Á skikanum er félagsheimili sem Starfsmannafélag Loftleiða átti og lítil sumarbústaður úr eigu fjölskyldu sem átti landið í upphafi.

„Kunnugir segja að Nesvík sé magnaður og sérstakur staður með útsýni yfir flóann á Reykjavík. Þar sé líka skjólsælla heldur en undir fjallinu,“ lýsir Haraldur aðstæðum á fyrirhuguðum byggingarstað.

Haraldur segir að hugmyndir um verkefnið séu enn á frumstigi og ómótaðar. „En það er verið að vinna með einhvers konar heilsutengda ferðaþjónustu,“ útskýrir hann.

Fram kemur í erindi sem Haraldur hefur sent Reykjavíkurborg að forsenda fyrir frekari þróun verkefnsins í samvinnu við aðra landeigendur á svæðinu og skipulagsyfirvöld sé að fyrir liggi að áformuð starfsemi falli að gildandi aðalskipulagi. Þar er jafnframt bent á að samkvæmt aðalskipulagi megi gera ráð fyrir starfsemi í tengslum við ferðaþjónustu og afþreyingu. Hann óskar eftir umsögn skipulagsfulltrúa.

„Ef niðurstaða slíkrar umsagnar er jákvæð þá hyggst viðkomandi festa kaup á landinu samkvæmt fyrirliggjandi kaupréttarsamningi þar um við núverandi landeiganda og hefjast handa við undirbúning verkefnisins," skrifar Haraldur. „Eitt skref í áttina að því að gera þetta fýsilegra fyrir erlenda fjárfesta er að það liggi fyrir að svo sé,“ segir hann við Fréttablaðið.

Erindi Haraldar var tekið fyrir á síðasta fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur sem vísað því til umsagnar hjá verkefnisstjóra.

Þess má geta að Haraldur segir aðspurður að hinir erlendu aðilar séu ekki Carpenter og Co. sem hann starfar einnig fyrir og er að byggja hótel sem Marriot-keðjan hyggst reka við hlið Hörpunnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×