Innlent

Fimm þingmenn þegja um styrki

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Níu þingmenn í þremur flokkum greindu í júní frá prófkjörsbaráttu sinni 2006 hér í blaðinu. Bæði um heildarkostnað og hverjir veittu þeim hæstu styrkina. Enn eiga fimm þingmenn eftir að nafngreina styrkveitendur sem samtals veittu þeim 10,7 milljónir í framlög fyrir prófkjör 2006 vegna þessarar baráttu og er þá einungis litið til styrkja sem nema hálfri milljón eða meira. Þess skal geta að Ríkisendurskoðun mæltist til þess – eftir á að frambjóðendur greindu frá þessum styrkjum sínum, en þegar þeir voru veittir giltu engin ákvæði sem skylduðu frambjóðendur til að segja hvaðan aurarnir komu.

Af óútskýrðu 10,7 milljónunum eru 4,7 milljónir frá lögaðilum og sex frá einstaklingum. Þingmennirnir fimm eru allir í Sjálfstæðisflokknum og á Guðlaugur Þór Þórðarson bróðurhluta summunnar, 7,5 milljónir.

Guðlaugur hefur skýrt leyndina með því að sumir styrkveitendur hafi ekki leyft honum að birta nöfn sín. Þá hafi hann ekki náð í nokkra aðila til að fá samþykki þeirra. Án þess að staðhæfa að svo sé, segist hann heldur ekki birta nöfn þeirra sem kunni að vera látnir.

Sigurður Kári Kristjánsson hefur í viðtali við Fréttablaðið neitað að gefa upp hverjir lögðu honum 1,5 milljónir til baráttunnar. Hann hefur síðar sagt að styrkir sínir séu frá fjölskyldumeðlimum og fólki sem tengist honum vinaböndum. Þetta fólk kæri sig ekki um að vera hluti af styrkjaumræðunni.

Pétur H. Blöndal hefur upplýst í Fréttablaðinu að 700.000 króna styrkur til sín hafi verið frá hjónum sem vildu láta prenta fyrir hann bækling. Hann sagði fyrir nokkru að hann þyrfti að fá leyfi frá fólkinu til að nafngreina það. Pétur var á þriðjudag ekki búinn að þessu og vildi ekki veita viðtal til útskýringar.

Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hefur greint blaðinu frá því að hann hafi beðið um, en ekki fengið, leyfi til að gefa upp hver veitti honum hálfa milljón í styrk. Hann hefur sjálfur hvatt flokksmenn sína til að segja frá slíkum styrkjum eftir því sem hægt er. Það sé sjálfsagt og eðlilegt að leggja allt á borðið.

En Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Norðausturkjördæmis, hefur alls ekki útskýrt hálfrar milljónar króna styrk fyrir þessar sömu kosningar. Ekki hefur náðst í Kristján Þór síðustu vikur þrátt fyrir fjölmargar símhringingar og skilaboð.

Eftir því sem næst verður komist hafa allir aðrir þingmenn greint frá sínum styrkjum af þessari stærðargráðu, annaðhvort hjá Ríkisendurskoðun, í Fréttablaðinu eða á Vísi. Ábendingar um annað væru vel þegnar.

Þess skal getið að þær upplýsingar sem þingmenn hafa veitt Ríkisendurskoðun og fjölmiðlum, um styrki og kostnað, hafa ekki verið sannreyndar.

klemens@frettabladid.is
Guðlaugur Þór Þórðarson
Kristján Þór Júlíusson


Pétur Haraldsson Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×