Viðskipti innlent

Fyrsta snertilausa greiðslan

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Fyrsta snertilausa snjallsímagreiðslan var innt af hendi á veitingastaðnum Lemon í gær.
Fyrsta snertilausa snjallsímagreiðslan var innt af hendi á veitingastaðnum Lemon í gær. Vísir/Vilhelm
„Við teljum okkur vera að leggja grunninn að framtíð greiðslulausna,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors, í samtali við Fréttablaðið í dag. Í gær framkvæmdi hann fyrstu raunverulega snertilausu greiðsluna hérlendis í kjölfar þess að Valitor setti upp fyrsta snertilausa posann hjá söluaðila.

Með þessu er hafinn nýr kafli í rafrænum viðskiptum hérlendis með áherslu á aukin þægindi fyrir viðskiptavini og kaupmenn samkvæmt Viðari.

Íslenskir kaupmenn eiga þess nú kost að fá uppfærslu í posabúnaðinn sinn og geta því farið að bjóða viðskiptavinum að greiða snertilaust fyrir vörur og þjónustu. Uppfærslan gildir bæði fyrir móttöku á greiðslum með kortum og snjallsímum. Fyrst í stað mun þessi nýja tilhögun einkum nýtast erlendum ferðamönnum með slík greiðslukort en yfir 70 milljónir snertilausra korta eru nú þegar í umferð í Evrópu.

Viðar segir snertilausan greiðslumáta henta sérstaklega vel þar sem mikils hraða í afgreiðslu er krafist og fyrir lágar upphæðir, til dæmis í kvikmyndahúsum, á skyndibitastöðum, á íþróttakappleikjum og svo framvegis. Unnt er að afgreiða allt að 3.500 krónur með þessum hætti en hærri upphæðir krefjast innsláttar á pin-númeri.

„Við teljum að árið 2020 muni allavega helmingur allra greiðslna á Íslandi fara fram með þessum hætti,“ segir Viðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×