Innlent

Hafi aldrei tjáð ótta við kyn­færa­li­m­lestingar í Egypta­landi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Khedr-fjölskyldan. Til stóð að vísa henni úr landi á miðvikudag en hún er enn í felum.
Khedr-fjölskyldan. Til stóð að vísa henni úr landi á miðvikudag en hún er enn í felum. Vísir/Baldur

Útlendingastofnun segir að á engu stigi máls egypskrar fjölskyldu, sem vísa átti úr landi í síðustu viku, hafi því verið borið við að fjölskyldumeðlimir óttuðust limlestingar á kynfærum, yrði þeim gert að snúa aftur til heimalands síns. Sú málsástæða hafi því ekki verið tekin sérstaklega til umfjöllunar í niðurstöðu Útlendingastofnunar í máli fjölskyldunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Útlendingastofnun.

Fram kom í frétt Mbl í gær að ekki hefði verið kannað hvort móðir og dóttir í Khedr-fjölskyldunni væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu með hliðsjón af því að „yfir 90 prósent kvenna í Egyptalandi hafa orðið fyrir kynfæralimlestingu“.

Magnús Davíð Norðdahl lögmaður fjölskyldunnar gagnrýndi Útlendingastofnun í samtali við Mbl fyrir að hafa ekki kannað þetta. Ítarlega hafi verið fjallað um það hversu algengar kynfæralimlestingar eru í Egyptalandi í máli annarrar egypskrar fjölskyldu sem tekin var ákvörðun um í fyrra. Sú fjölskylda hafi fengið hæli hér á landi.

Útlendingastofnun kveðst hins vegar ekki hafa tekið þessa málsástæðu sérstaklega fyrir í máli fjölskyldunnar, þar sem fjölskyldumeðlimir hafi aldrei borið því við að þeir óttuðust limlestingar á kynfærum, líkt og áður segir.

Þá bendir Útlendingastofnun á að í máli fjölskyldunnar hafi verið um að ræða beiðni um alþjóðlega vernd á grundvelli ofsókna á hendur fjölskylduföðurnum. Tekin hafi verið viðtöl við foreldrana og eldri börnin tvö, auk þess sem talsmaður hafi lagt fram greinargerð í málinu. Tilkynningu Útlendingastofnunar má nálgast í heild hér.

Lögregla lýsti formlega eftir fjölskyldunni í gærkvöldi en hún hefur verið í felum síðan á miðvikudag í síðustu viku. Tugir ábendinga um dvalarstað fjölskyldunnar hafa borist lögreglu og nokkrum hefur verið fylgt eftir. Fæstar þeirra standast þó skoðun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×