Viðskipti innlent

Gæti hjálpað Seðlabankanum að lækka stýrivexti

Sérfræðingur í greiningardeild Arion banka segir þessa þróun verðlags geta hjálpað Seðlabankanum að lækka stýrivexti.
Sérfræðingur í greiningardeild Arion banka segir þessa þróun verðlags geta hjálpað Seðlabankanum að lækka stýrivexti.
Verðhjöðnunar gætti á milli maímánuðar og júní. Ársverðbólga mælist nú 5,7 prósent, og hefur ekki verið lægri síðan í árslok 2007. Sérfræðingur í greiningardeild Arion banka segir þessa þróun verðlags geta hjálpað Seðlabankanum að lækka stýrivexti.

Lækkun vísitölu neysluverðs nam 0,33 prósentum milli maí og júní, en leita þarf aftur til ársins 1996 til að finna verðhjöðnun í júnímánuði.

Munar hér mest um að verð á bensíni og díselolíu lækkaði um tæp 6 prósent milli mánaða, en það má rekja til lækkunar heimsmarkaðsverðs, styrkingar krónunnar og verðstríðs olíufélaganna. Þá hafði verðlækkun matar og drykkjarvöru um eitt og hálft prósent nokkur áhrif, sem fyrst og fremst má rekja til styrkingar krónunnar.

Þórhallur Ásbjörnsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir óalgengt að verðlag lækki í júní, en algengara sé að slíkt gerist í kringum útsölur í janúar og júlí. Það gæti því allt eins verið von á því að verðlag lækki tvo mánuði í röð.

Að öðru jöfnu getur viðvarandi verðhjöðnun haft veruleg neikvæð áhrif á efnahagslíf ríkja. Þórhallur segist þó ekki hafa áhyggjur vegna þessa og býst ekki við að verðhjöðnunin verði svo mikil að það hafi áhrif hér á landi.

Ársverðbólga mælist nú 5,7 prósent og hefur ekki verið lægri síðan í nóvember 2007 þegar hún mældist 5,2 prósent. Sé tekið mið af verðþróun undanfarinna þrjá mánuði verður ársverðbólga 1,3 prósent. Þórhallur segir það benda til þess að dregið hafi úr verðbólguþrýstingi og það geti hjálpað Seðlabankanum að lækka stýrivexti. Verðbólgumarkmið seðlabankans er 2,5 prósent á ári, en verðbólgan hefur ekki verið undir því marki síðan árið 2004.


Tengdar fréttir

Verðbólga 5,7 prósent

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í júní er 364,1 stig og lækkaði um 0,33% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 346,3 stig og lækkaði hún um 0,46% frá maí.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×