Lífið

GusGus og Quarashi leiða saman hesta sína

Hljómsveitirnar Quarashi og GusGus ætla að endurhljóðblanda lög eftir hvor aðra.
Hljómsveitirnar Quarashi og GusGus ætla að endurhljóðblanda lög eftir hvor aðra. Mynd/Valli
Hljómsveitirnar Quarashi og GusGus hafa ákveðið að leiða saman hesta sína og endurhljóðblanda lög eftir hvor aðra. Lögin verða síðan gefin út á smáskífu sem verður fáanleg á netinu.

„Við höfum öll verið góðir kunningjar í gegnum tíðina og komum bæði fram á Bestu útihátíðinni. Okkur fannst afbragðsgóð hugmynd að vinna saman og þetta var það sem við ákváðum að gera. Quarashi var á sínum tíma fyrsta hljómsveitin á Íslandi til að gefa út lag í MP3-formi og við viljum halda áfram að fara ótroðnar slóðir í þeim málum," útskýrir Sölvi Blöndal, tónlistarmaður og meðlimur Quarashi.

Sölvi ætlar að hefjast handa við endurhljóðblöndunina í kvöld, á þjóðhátíðardeginum sjálfum. „Ég hlakka mjög mikið til að takast á við þetta verkefni og gera eitthvað glænýtt úr GusGus. Ég hef endurhljóðblandað lög fyrir Cypress Hill og Prodigy og hef fyrir reglu að taka ekki að mér svoleiðis verkefni nema ég virði listamanninn og mér finnst GusGus-krakkarnir krúttleg og kúl," segir Sölvi.

Hægt verður að hlaða niður smáskífunni á Ring.is. Um þrjú þúsund miðar hafa nú selst á Bestu útihátíðina en miðasala fer fram á miði.is.- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×