Innlent

Herdís íhugar alvarlega forsetaframboð

Erla Hlynsdóttir skrifar
Doktor Herdís Þorgeirsdóttir íhugar alvarlega að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Hún segir ákvörðun sína byggja á því hvort hún fái nægan stuðning til framboðs. Herdís starfar sem lögmaður í Reykjavík. Hún er forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga og starfar mikið fyrir Feneyjanefnd Evrópuráðsins á sviði mannréttinda.

Hún bætist nú í hóp þeirra sem íhuga framboð gegn sitjandi forseta. Hópurinn Betri valkost á Bessastaði lét nýverið gera viðhorfskönnun þar sem spurt var hvern fólk vill sjá á Bessastöðum.

Aðspurð segir Herdís að ástæðan fyrir því að hún hafi ekki verið með í þeirri könnun sé sú að á þeim tímapunkti hafi hún ekki verið tilbúin að tjá sig um þessi mál. „Auk þess leit ég ekki á eina skoðanakönnun sem upphaf og endi framboðs," segir hún, en játar því jafnframt að hún hafi fengið margar áskoranir.

Herdís ritaði grein í Fréttablaðið á laugardag þar sem hún sagði blasa við að forsetinn myndi sitja í tuttugu ár, og að kostnaður við framboð mætti ekki fæla frá aðra hugsanlega frambjóðendur. Margir töldu greinina eins konar fyrsta skref Herdísar að framboði og hvöttu margir hana til að gefa kost á sér.

Herdís segist vera að velta þeim möguleika fyrir sér að bjóða sig fram, en ákvörðunin byggi á því hversu mikla hvatningu hún fái. Hvenær sú ákvörðun liggi fyrir velti á því hversu mikinn stuðning hún fái. „Ákvörðunin mun byggja á því hvort ég finn öflugan stuðning," segir Herdís.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×