Fótbolti

Hjörvar í viðtali á Sky Sports | Menn eru að ræða við Denzel um myndina

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hjörvar Hafliðason
Hjörvar Hafliðason mynd/skjáskot
Gríðarleg eftirvænting er fyrir leik Króatíu og Íslands í umspilinu um sæti á HM í Brasilíu sem fram fer á næsta ári.

Leikurinn fer fram í Zagreb í kvöld en fyrri leikur liðanna lauk með markalausu jafntefli.

Hjörvar Hafliðason, dagskrástjóri Stöðvar 2 Sports, var í viðtali við sjónvarpsstöðina Sky Sports News fyrr í dag en Englendingar hafa mikinn áhuga á íslenska landsliðinu og umfjöllunin töluverð fyrir leikinn.

„Þetta er magnaður árangur hjá íslenska landsliðinu, það búa færri hér en í Lúxemborg,“ sagði Hjörvar í viðtali við Sky Sports.

„Hér er mikill kuldi yfir veturinn en aðstæður til knattspyrnuiðkunar samt sem áður frábær. Knattspyrnuhallir eru algengar hér á landi og hér geta menn æft allt árið.“

„Íslendingar eiga einnig ótrúlega hæfileikaríka þjálfara sem hafa gert frábæra hluti fyrir unga íslenska leikmenn.“

„Eftirvæntingin fyrir leiknum er ótrúleg hér á landi en 99% af þjóðinni elskar fótbolta. Ef við komust á heimsmeistaramótið verður það stærsta stund þjóðarinnar.“

„Þetta er þvílíkt ævintýri fyrir okkur og menn eru strax farnir að tala við Denzel Washington um að leika í myndinni,“ sagði Hjörvar léttur að lokum.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við Hjörvar í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×