Skoðun

Hótel mamma

Jórunn Pála Jónasdóttir skrifar
Fátt er jafn spennandi og að flytja að heiman. Þessi stund í lífi okkar allra, allavega flestra okkar, þegar maður skríður yfir tvítugt, yfirgefur unglingsárin og tekur fyrstu skrefin í átt til sjálfstæðis með því að yfirgefa „Hótel mömmu“ og koma undir sig eigin fótum, markar óneitanlega kaflaskil. Í dag vekja þessi tímamót þó óþarfa kvíða á meðal margra ungra Reykvíkinga enda ekki hlaupið að því fyrir ungt fólk, einkum tekjulitla námsmenn, að útvega sér húsnæði í höfuðborginni.

Ekki er óalgengt að ungt fólk sé að greiða vel yfir hundrað þúsund krónur fyrir litlar „holur“ í miðbæ Reykjavíkur. Ofan á þessar hundrað þúsund krónur bætast síðan allskonar staðlaðir mánaðarreikningar fyrir nauðsynjum á borð við rafmagn, hita, interneti og síma. Þá er í langflestum tilfellum gerð sú krafa, af hálfu leigusala, að leigjandi greiði bæði fyrirfram tvo til þrjá mánuði auk tryggingar í formi reiðufjár eða bankaábyrgðar. Fyrir ungt par með meðaltekjur getur þetta þýtt mjög erfiðan róður þar sem stærstur hluti mánaðartekna þess fer í húsnæðiskostnað og lítill sem enginn afgangur verður eftir til að leggja til hliðar. Fyrir einhleypan námsmann markar þetta hins vegar ómöguleika og verður til þess að drepa niður alla draumóra um að flytja að heiman.

Í mánuði á biðlista

Námsmönnum bjóðast vissulega ákveðin úrræði á borð við stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta og stúdentaíbúðir Byggingarfélags námsmanna. Helsti gallinn við þessi úrræði felst í því að eftirspurnin er margföld á við framboðið og þeir sem ætla sér að nýta þau verða því að bíta í það súra epli að sitja mánuðum saman á biðlista. Einhleypur námsmaður í Reykjavík sem hvorki hefur efni á því að leigja íbúð á almennum leigumarkaði né hefur þolinmæði til að bíða út í hið óendanlega eftir stúdentaíbúð situr því í raun fastur heima hjá foreldrum sínum í eins konar nútíma átthagafjötrum.

Það hlýtur að vera til einhver skynsamleg lausn á þessu vandamáli. Til dæmis að leitað verði leiða til þess að lækka byggingarkostnað eða að lóðum verði úthlutað til frumkvöðla líkt og Smáíbúða ehf. sem hafa bent á möguleika sem felast í því að innrétta íbúðir inni í gámum. Eitthvað verður að gera til að auðvelda ungum Reykvíkingum að koma undir sig fótunum. Aðgerðarleysi núverandi borgarstjórnarmeirihluta er ólíðandi og ef ekki finnast lausnir á næstu misserum þá mun húsnæðisvandi ungra Reykvíkinga halda áfram að vaxa. Vonandi kemst nýr og frjálslyndur meirihluti til valda í borgarstjórninni í vor, meirihluti sem setur málefni ungs fólks í forgang.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×