Innlent

Íbúðalánasjóður: Aðeins 40 fasteignir á leigumarkað

Hafsteinn Hauksson skrifar
Aðeins 40 fasteignir í eigu Íbúðalánasjóðs munu rata á leigumarkað á næstunni, en framkvæmdastjóri sjóðsins hafði áður gefið til kynna að þær gætu orðið allt að þrefalt fleiri. Leggja hefði þurft út í hundruð milljóna kostnað til að gera allar fasteignirnar íbúðarhæfar.

Á fundi stjórnarformanns og framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs og velferðarráðherra í ágúst var ákveðið að kanna möguleika á því að setja hluta af eignum sjóðsins á leigumarkað til að mæta mikilli eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Þá gaf framkvæmdastjóri sjóðsins til kynna að allt að 130 fasteignir á höfuðborgarsvæðinu af þeim 1400 sem sjóðurinn hefur leyst til sín gætu ratað í útleigu.

Þegar starfsmenn sjóðsins huguðu að ástandi eignanna blasti hins vegar við að bygging margra þeirra var afar skammt á veg komin. Að sögn Ágústs Kr. Björnssonar, sviðsstjóra eignasviðs sjóðsins, hefði þurft að leggja út í kostnað upp á fimm til sexhundruð milljónir króna til að fullbyggja eignirnar og gera þær íbúðarhæfar. Stjórn sjóðsins hafi að teknu tilliti til hlutverks Íbúðalánasjóðs ákveðið að leggja ekki út í þann kostnað að sinni.

Niðurstaðan er því sú að aðeins verður ráðist í viðhaldsframkvæmdir við um 40 eignir til að gera þær útleiguhæfar, en Ágúst býst við að þær verði komnar í útleigu fyrir áramót. Hann vísar því á bug að sjóðurinn hafi hlaupið á sig þegar fullyrt var að 130 eignir gætu ratað á markað, en þegar kostnaður við það hafi legið fyrir hafi stjórn sjóðsins einfaldlega tekið ákvörðun um að horfa til 40 eigna.

Ekki náðist í Sigurð Erlingsson, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, við vinnslu fréttarinnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×