Innlent

Íslendingar berjast við Kólerufarald í Síerra Leone

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tveir íslenskir starfsmenn Rauða krossins leiða hjálparstarf vegna mesta kólerufaraldurs sem upp hefur komið í Afríku á þessu ári, en það er í Síerra Leone. Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að veita fjórtán milljónum króna til neyðarhjálpar í landinu vegna ástandsins.

Rúmlega 20 þúsund manns hafa sýkst og næstum 300 látist í kólerufaraldrinum í Síerra Leone, sem er sá mesti í landinu í yfir fjörutíu ár og sá mesti í Afríku á þessu ári. Kólera er bráðdrepandi iðrasjúkdómur sem veldur niðurgangi og uppþornun líkamans og getur leitt til dauða á nokkrum klukkustundum.

Alþjóða Rauði krossinn hefur gripið til víðtækra aðgerða sem ná til yfir einnar milljónar manna og eru tveir Íslendingar lykilhlutverki, þeir Hlér Guðjónsson, sem stýrir hjálparstarfinu, og Kristjón Þorkelsson, sem er vatns- og frárennslissérfræðingur.

Kóleran hefur verið bundin við nokkur héruð og höfuðborgina og er nú í rénum en Rauði krossinn óttast að faraldurinn geti breiðst út víðar um landið. Hægt er að sjá viðtal við Kirstjón í viðhengi hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×