Skoðun

Íslendingar vilja hjálpa sárafátækum

Ragnar Schram skrifar
Við Íslendingar viljum styðja þjóðir sem eru mun fátækari en við á leið þeirra til bættra lífsgæða. Niðurstöður skoðanakönnunar sem MMR gerði fyrr á árinu sýndu að níu af hverjum tíu Íslendingum vilja óbreytt eða aukin framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Þá túlka ég tölur frá ýmsum samtökum sem koma að þróunarsamvinnu einnig í þá veru en tugir þúsunda íslenskra heimila greiða mánaðarlega til slíkrar samvinnu. Það gera þeir t.d. með því að hjálpa með gagnsæjum hætti einu foreldralausu barni svo það fái fjölskyldu og geti stundað nám í góðum skóla og síðar komið að uppbyggingu heimabyggðar sinnar.

Algeng mánaðarleg framlög þessara íslensku heimila eru á bilinu 1.000–5.000 krónur. Mörg heimilin búa við þröngan fjárhag og neita sér um einhver gæði til að geta hjálpað þeim sem miklu minna eiga, því vilji er stundum allt sem þarf.

Vilji er allt sem þarf

Íslendingar hafa ítrekað lýst því yfir að þeir vilji veita 0,7% af þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Í dag er hlutfallið 0,26%. Ef um einstakling með meðaltekjur væri að ræða samsvaraði það tæplega 2.000 krónum á mánuði. Sem betur fer eru þeir ekki margir sem gætu, með snjallsíma í hönd og tískusólgleraugu á nefinu, horft í augu sveltandi manns og neitað um aðstoð.

Við Íslendingar viljum standa við alþjóðlegar skuldbindingar (0,7% af þjóðartekjum) á þessu sviði. Það er vel hægt. En að sjálfsögðu þurfum við að verja fénu þar sem það nýtist best og með gagnsæjum hætti. Það er einnig hægt. Svo þurfum við líka að hjálpa því fólki hér á landi sem býr við sárafátækt. Það er líka vel hægt. Vilji er allt sem þarf. En svo er líka hægt að reisa sér fílabeinsturn og lifa þar góðu lífi við allsnægtir, jafnvel með bundið fyrir augun. Það viljum við ekki.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×