Viðskipti innlent

Jón Ásgeir boðar endurkomu sína í breska verslunargeirann

Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson boðar nú endurkomu sína í breska verslunargeirann. Hann ætlar sér að mynda þar nýtt konungsveldi um leið og hann er laus við þau dómsmál sem nú eru rekin gegn honum.

Þetta kemur fram í viðtali Bloomberg fréttaveitunnar við Jón Ásgeir. Þar segir Jón Ásgeir að hann hafi enn áhuga á viðskiptum og ætli sér að halda þeim áhuga við enda aðeins 44 ára gamall. Jón Ásgeir segir að hann hafi ekki áhuga á að byggja upp stórt keisaraveldi að nýju heldur ætli að láta sér nægja lítið konungsdæmi og reka það vel, eins og hann orðar það við Bloomberg.

Jón Ásgeir segir að hann hafi lært af mistökum sínum í fortíðinni en velti sér ekki upp úr þeim. Helstu mistök hans hafi verið að stöðva ekki útrás sína eftir kaupin á Big Food Group fyrir 326 milljónir punda árið 2004.

„Ef ég hefði gert það væri ég líklega einn af auðugustu einstaklingum í Evrópu í dag," segir Jón Ásgeir. „Ég sé að sjálfsögðu eftir því en sá lærir sem lifir."

Fram kemur í viðtalinu að fyrir utan Bretland hefur Jón Ásgeir einnig áhuga á því að leita fyrir sér í verslunarrekstri í Bandaríkjunum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×