Lífið

Kevin Smith kemur til Íslands

Bandaríski leikstjórinn spjallar við íslenska aðdáendur sína í nóvember.
nordicphotos/getty
Bandaríski leikstjórinn spjallar við íslenska aðdáendur sína í nóvember. nordicphotos/getty
„Ég er búinn að vera aðdáandi lengi," segir Guðlaugur Hannesson sem skipuleggur sýningu með Hollywood-leikstjóranum Kevin Smith í Hörpunni í nóvember.

Þar verður leikstjórinn, sem er þekktastur fyrir myndirnar Clerks, Chasing Amy og Dogma, með uppistand og svarar spurningum áhorfenda úr salnum. „Ég fékk samband við umboðsmanninn hans árið 2008 en þá kom þetta blessaða hrun. Ég er búinn að vera í stöðugum samskiptum síðan þá," segir Guðlaugur sem var að vonum ánægður þegar samningar tókust loks í síðustu viku. Smith mun dvelja hér á landi í nokkra daga og hlakkar hann mikið til að heimsækja Ísland í fyrsta sinn.

Guðlaugur er 29 ára nemi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hann lofar skemmtilegri sýningu í Hörpunni enda Smith vanur maður þegar svona viðburðir eru annars vegar. „Hann er mjög góður sögumaður og síðan eru ákveðnir valdir sem fá að standa upp og spyrja spurninga um kvikmyndaiðnaðinn og sögurnar sem tengjast honum persónulega," segir Guðlaugur. Eftir sýninguna verður svokallað „meet and greet" þar sem þeir sem eiga dýrustu miðana geta spjallað við Smith augliti til auglits.

Sýningin verður í Eldborgarsalnum sem tekur 1.600 manns og hefst forsala miða í þessari viku. „Svona viðburður hefur ekki átt sér stað á Íslandi áður. Quentin Tarantino kom hingað 2002 en eitthvað í þessum strúktúr hefur ekki sést hérna áður. Íslendingar eru alltaf að kvarta yfir því að það sé ekkert að gerast þannig að ég býst við góðri mætingu," segir Guðlaugur. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×