Innlent

Kínverji hefur keypt eina stærstu jörð Íslands

Dettifoss
Dettifoss Mynd úr safni
Kínverskur auðmaður keypti í gær eina landmestu jörð á Íslandi, Grímsstaði á Fjöllum, með það í huga að byggja þar upp lúxushótel. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki íslenskra og kínverskra stjórnvalda.

Grímsstaðir eru við hringveginn skammt frá brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum, og liggur nærri nokkrum af helstu náttúruperlum Íslands, eins og Dettifossi, Ásbyrgi, Mývatni, Herðubreið, Öskju og Kverkfjöllum.

Það er einmitt þessi staðsetning Grímsstaða sem veldur því að Kínverjinn Huang Nubo hefur nú keypt jörðina, að sögn til að byggja upp umhverfistengda ferðaþjónustu.

Eins og Stöð 2 skýrði frá í fyrradag, kom hann þangað með sendinefnd til fundar við landeigendur og fulltrúa sveitarstjórna en gengið var frá jarðakaupunum í Reykjavík í gær, með fyrirvara um samþykki íslenskra og kínverskra stjórnvalda. Íslensk stjórnvöld bregðast jákvætt við málinu, miðað við tilkynningu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra í gærkvöldi, en hann fundaði með Kínverjanum í gær.

Kvaðst utanríkisráðherra fagna erlendri fjárfestingu og uppbyggingu í ferðaþjónustu, sér í lagi á landsbyggðinni. Kínverjinn hyggst byggja upp lúxushótel á Grímsstöðum og annað hótel í Reykjavík og tengja rekstur þeirra.

Hann kveðst reiðubúinn að afsala sér vatnsréttindum í Jökulsá á Fjöllum og að vinna verkefnið að öllu leyti í náinni samvinnu við íslensk stjórnvöld og heimamenn, að því er fram kemur í tilkynningu utanríkisráðherra í gærkvöldi.


Tengdar fréttir

Kínverji vill reisa risahótel á Grímsstöðum á Fjöllum

Kínverskur auðjöfur hefur kynnt sveitarstjórnarmönnum á Norðausturlandi áform um milljarða fjárfestingu í ferðaþjónustu á svæðinu, sem fela meðal annars í sér byggingu stór hótels á Grímsstöðum á Fjöllum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×