Innlent

Kvikmyndaskólinn nýtur ekki sannmælis

Hilmar Oddsson Vill að það sé haft hugfast að ríkisframlag vegna sambærilegs náms á Norðurlöndum er um fjörutíu sinnum hærra á hvern nemenda en hér á landi.fréttablaðið/gva
Hilmar Oddsson Vill að það sé haft hugfast að ríkisframlag vegna sambærilegs náms á Norðurlöndum er um fjörutíu sinnum hærra á hvern nemenda en hér á landi.fréttablaðið/gva
Hilmar Oddsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, segir að skilaboðin sem bárust út af ríkisstjórnarfundi í gær hafi í engu skýrt stöðu skólans. Hann telur að skökk mynd sé dregin upp af skólanum; máluð sé mynd af skóla með ósanngjarnar kröfur án þess að sú staðreynd komi fram að skólinn bjóði upp á sambærilegt nám við það besta á Norðurlöndunum fyrir brotabrot af þeim kostnaði sem þekkist annars staðar.

Eftir ríkisstjórnarfund í gær sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að fyrra tilboð stjórnvalda um aukin framlög til skólans væri enn á borðinu. Hún tók einnig allan vafa af um það að nemendur skólans fengju fyrirgreiðslu hjá LÍN þrátt fyrir ríkjandi óvissu. Niðurstaða mennta- og menningarráðuneytisins, eftir skoðun á gögnum skólans, er að hann sé ekki rekstrarhæfur.

„Eina sem ég get ráðið í þetta er að gamla tilboðið sé uppi á borðinu, en það var það sannarlega ekki í gær,“ segir Hilmar. Þar vísar hann til þess að skólanum hafa verið boðnar 58 milljónir en fjárveiting til skólans 2010 var 39 milljónir. Skólinn verður ekki rekinn fyrir lægra ríkisframlag en 70 milljónir, að sögn Hilmars.

Fimm skólar sem kenna kvikmyndagerð í Danmörku, Svíþjóð og Noregi eru í CILECT, alþjóðasamtökum kvikmyndaskóla auk Kvikmyndaskóla Íslands. Kostnaður við hvern nemenda Kvikmyndaskólans er 278 þúsund krónur á ári. Hinir skólarnir í CILECT fá allir um tíu milljónir með hverjum nemenda.

- shá



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×