Innlent

Láta reyna á samstarf með áherslu á mannréttindi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Eftir að tillaga borgarstjóra  var lögð fram var málið skoðað og í kjölfarið  fundaði borgin með utanríkisráðuneytinu, Samtökum 78 og sendiherra Rússlands.
Eftir að tillaga borgarstjóra var lögð fram var málið skoðað og í kjölfarið fundaði borgin með utanríkisráðuneytinu, Samtökum 78 og sendiherra Rússlands. mynd/Stefán Karlsson
Reykjavíkurborg ætlar ekki að slíta samstarfssamningi við Moskvu. Staðgengill Jóns Gnarr borgarstjóra lagði í sumar fram tillögu fyrir hönd borgarstjórans þess efnis. Með tillögunni var lagt til að formleg stjórnmála- og menningartengsl Reykjavíkur við Moskvu yrðu slitin eða endurskoðuð. 

Árið 2008 lýsti Moskva yfir áhuga á samstarfi við Reykjavíkurborg á sviði menningar og lista á grundvelli ákvæðis í samningnum. Því erindi var aldrei svarað.

Eftir að tillaga borgarstjóra var lögð fram var málið skoðað og í kjölfarið fundaði borgin með utanríkisráðuneytinu, Samtökum 78 og sendiherra Rússlands.

S. Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra, segir það hafa verið sameiginlegt álit fundarins að réttara væri að kanna hvort hægt væri að treysta samband borganna á ákveðnum forsendum frekar en að slíta sambandinu. Auk þess að bæta menningarsamskipti myndi Reykjavíkurborg láta reyna á samskipti tengd mannréttindamálum og þá ekki síst réttindum LGBT fólks.

Reykjavíkurborg lýsir sig nú reiðubúna til þess að ræða samstarf á sviði lista og menningar. Samhliða því að rætt verði um samstarf borganna á grundvelli ákvæðis samningsins sem fjallar um unglinga, fjölskyldumál, með áherslu á mannréttindi og þá sérstaklega réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks.

„Það er verkefni sem við förum í núna,“ segir Björn. „Þau komu með ákveðna tillögu og við komum með tillögu á móti.“





Reykjavík og Moskva systurborgir síðan 2007

Í fundargerð borgaráðs segir orðrétt:

„Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað á síðustu misserum í málefnum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Rússlandi er borgarlögmanni, mannréttindaskrifstofu og skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að koma með tillögur að breytingum á eða uppsögn samstarfssamnings Reykjavíkur og Moskvu, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið.“

Borgirnar tvær urðu „systurborgir“ í borgarstjórnartíð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar árið 2007. Samstarfssamningurinn sem um ræðir kvað á um viðtækt samstarf á milli borganna tveggja. Bæði Vilhjálmur og áður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafa heimsótt borgina í formlegum erindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×