Innlent

Lítill háskóli með ódýran kafbát vann stóran sigur

Lið Háskólans í Reykjavík, talið frá vinstri: Stefán Freyr Stefánsson, Bjarni Helgason, Hamid Pourvatan, Hendrik Tómasson, Styrmir Hauksson, Guðmundur Viktorsson, Matthías Stefánsson, Hákon Halldórsson, Elín Adda Steinarsdóttir, Eiríkur Jónsson, Guðjón Hugberg Björnsson, Símon Elvar Vilhjálmsson, Tryggvi Þórhallsson og Jón Guðnason.
Lið Háskólans í Reykjavík, talið frá vinstri: Stefán Freyr Stefánsson, Bjarni Helgason, Hamid Pourvatan, Hendrik Tómasson, Styrmir Hauksson, Guðmundur Viktorsson, Matthías Stefánsson, Hákon Halldórsson, Elín Adda Steinarsdóttir, Eiríkur Jónsson, Guðjón Hugberg Björnsson, Símon Elvar Vilhjálmsson, Tryggvi Þórhallsson og Jón Guðnason.
Lið frá Háskólanum í Reykjavík náði fjórða sæti í kafbátamótinu RoboSub sem háð var í San Diego í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. Styrmir Hauksson, nemandi í hátækniverkfræði og liðsmaður HR-manna, segir sigurinn sérstaklega sætan í ljósi þess að aðrir keppendur komu frá stórum og mikilsvirtum skólum sem hafa margoft tekið þátt í þessari keppni og leggja mikið upp úr því að ná þar góðum árangri. Þetta er hins vegar í annað sinn sem HR tekur þátt.

„Til dæmis er okkar kafbátur hræódýr í samanburði við kafbáta keppinautanna, þess eru dæmi að einstök tæki í bátum hinna skólanna kosti svipað og allur báturinn okkar,“ segir Styrmir. Ekkert útlit var fyrir að þetta yrði frægðarför hjá íslenska liðinu, sem samanstóð af tólf nemendum og tveimur leiðbeinendum, því kafbáturinn sem ber nafnið Freyja virtist ekki ætla að verða neitt happafley. Strax á fyrsta degi opnaðist Freyja þegar verið var að prófa hana í lauginni.

„Þetta var hræðilegt áfall,“ segir Jón Guðnason, annar leiðbeinendanna. „Ég held að sú hugsun hafi farið um margan fyrst um sinn að nú væri þessu með öllu lokið.“ Það hefði orðið sneypuför því liðið hefur unnið að hönnun Freyju í marga mánuði. Einnig hefur miklu verið kostað til ferðarinnar sem vissulega kostar sitt. Munar þar mest um ríflegan styrk frá bandaríska sendiráðinu. En í stað þess að gráta Björn bónda var þegar hafist handa við viðgerðir sem síðan nægðu til þess að koma Freyju í undanúrslit. Beittu menn jafnvel óhefðbundnum aðferðum í þeim tilgangi. Til dæmis var ein linsan á Freyju þurrkuð með því að setja hana í hrísgrjón sem draga duglega í sig allan raka.

Freyja var síðan komin í form í úrslitunum með fyrrgreindum árangri. Styrmir beitir nú hugviti sínu á öðrum vettvangi en hann vinnur nú að upptökum með hljómsveitinni Árstíðir. Best er að geta þess að upptökur fara fram ofansjávar.

jse@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×