Innlent

Megum ekki endurtaka Íraks-mistök

Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson
Árni Þór Sigurðsson
Mikilvægt er að utanríkismálanefnd Alþingis fjalli ítarlega um aðgerðir Vesturveldanna gegn Líbíu og að breið samstaða náist um stuðning við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þetta er mat Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins og varamanns flokksins í utanríkismálanefnd.

„Við megum ekki endurtaka þau mistök sem voru gerð við stuðning við innrásina í Írak,“ segir Gunnar Bragi.

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, segir að málið verði líklega rætt á fundi nefndarinnar á morgun. Forsenda stuðnings hans og VG við hernaðaraðgerðir sé að farið verði í einu og öllu eftir samþykkt öryggisráðsins. Spurður hvort óeðlilegt sé að íslensk stjórnvöld styðji aðgerðirnar án formlegrar umfjöllunar í utanríkismálanefnd bendir Árni á að hugur manna hafi komið fram við tvær utandagskrárumræður í þinginu um málefni Mið-Austurlanda með skömmu millibili.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, kveðst hafa stutt aðgerðirnar gegn Líbíu. „En mér finnst ótrúlegt hvað þetta er farið að minna á aðgerðirnar í Júgóslavíu,“ segir hún og kveðst óttast að allt muni þetta enda með ósköpum.

Mikilvægt sé að utanríkismálanefnd fjalli sem fyrst og sem ítarlegast um næstu skref.- bþs / jab

Birgitta Jónsdóttir


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×