Innlent

Metfjöldi skráður í fermingu Siðmenntar

Samúel Karl Ólason skrifar
Jóhann Björnsson, kennari og heimspekingur, er umsjónarmaður fermingarnámskeiðs Siðmenntar.
Jóhann Björnsson, kennari og heimspekingur, er umsjónarmaður fermingarnámskeiðs Siðmenntar. Vísir/Rósa
300 ungmenni hafa skráð sig í borgaralega fermingu Siðmenntar á þessu ári og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Alls fermdust 209 borgaralega á síðasta ári og 214 árið áður. Það er 44 prósent aukning á milli ára og nú kjósa 7,3 prósent ungmenna á fermingaraldri námskeið og athöfn félagsins.

Á þessu ári verða samtals níu athafnir á sex stöðum á landinu. Þrjár verða í Reykjavík, tvær í Kópavogi og ein á Akureyri, Fljótsdalshéraði, Suðurlandi og á Höfn í Hornafirði.

„Á þeim 25 árum sem Siðmennt hefur boðið borgaralega fermingu sem valkost ungmenna, hafa vinsældir hennar aukist stöðugt. Það var árið 1989 sem fyrsta athöfnin fór fram á vegum Siðmenntar og voru 16 ungmenni í fyrsta árganginum. Fjölgunin hefur verið stöðug síðan þá,“ segir í tilkynningu frá Siðmennt.

Í tilkynningu frá Siðmennt segir að fermingarbörn á vegum félagsins sæki vandað námskeið þar sem þau undirbúa það að verða fullorðin með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. „Á undirbúningsnámskeiðinu er það talinn kostur hversu ólíkir þátttakendur eru þegar kemur að lífsafstöðu þeirra og skoðunum, enda hefur það margoft sannast á námskeiðunum að þrátt fyrir ólíkan bakgrunn og mismunandi skoðanir hafa þátttakendur vel getað rökrætt og átt samskipti á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.“

Umfjöllunarefni námskeiðsins eru fjölbreytt og er þar til dæmis farið yfir samskipti unglinga og fullorðinna, fjölskylduna, siðfræði, gagnrýna hugsun, mismunandi lífsviðhorf, frelsi, ábyrgð og margt fleira. Foreldrum eða forráðamönnum fermingarbarnanna er síðan boðið að koma í eina kennslustund.

Ungmennum sem skrá sig í borgaralega fermingu Siðmenntar hefur fjölgað mikið.Mynd/Siðmennt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×