Erlent

Mikil reiði eftir að gíraffinn Marius var aflífaður

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Dýraverndunarsinnar eru æfir eftir að dýragarðurinn í Kaupmannahöfn ákvað að aflífa átján mánaða heilbrigðan gíraffa. Dýragarðurinn taldi sig knúinn til að aflífa gíraffann vegna plássleysis og hættu á innræktun.

Marius var 18 mánaða gamall gíraffi og var vinsæll í dýragarðinum í Kaupmannahöfn. Fyrir nokkru ákváðu stjórnendur dýragarðsins að ekki væri hægt að komast hjá því að aflífa Marius vegna plássleysis og evrópskra reglna um innræktun.

Yfir 25 þúsund manns höfðu skrifað nafn sitt á undirskriftalista þess efnis að bjarga Marius og hafði breskur dýragarður boðist til að taka við gíraffanum. Allt kom þó fyrir ekki og ákváðu Danir að aflífa Marius í morgun.

„Marius var mjög hrifinn af rúgbrauði. Ég stóð fyrir aftan hann og skaut hann með rifli í höfuðið þegar hann hallaði höfði sínu fram og borðaði rúgbrauðið. Þá skaut ég hann í gegnum höfuðið. Marius hafði aldrei hugmynd hvað var framundan. Hann fékk brauðið sitt og svo drapst hann,“ sagði Mads Bertelsen.

Þúsundir mótmæltu

Fréttamiðlar víða um heim hafa fjallað um málið og eru stjórnendur dýragarðsins gagnrýndir harðlega. Þúsundir mættu til að mótmæla fyrir utan dýragarðinn í dag og kröfðust þess Marius fengi að lifa áfram.

Dýragarðurinn í Kaupmannahöfn hefur varið ákvörðun sína að leyfa Marius ekki að fara í dýragarð í Bretlandi. Hætta hefði einnig verið á innræktun hefði Marius haldið þangað.

Danskir fjölmiðlar sýndu beint frá fréttamannafundi í morgun þar sem tilkynnt var um aflífun Mariusar. Mörgum þykir ámælisvert að starfsmenn dýragarðsins hafi ákveðið að búta Marius niður í návist fjölmiðla og gesta dýragarðsins. Marius verður að hluta notaður til að fóðra ljón, tígridýr og ísbirni garðsins.

Ástæða er til að vara við myndefninu í fréttinni í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×