Innlent

Neyðarskorsteinar valda Samgöngustofu áhyggjum

Sveinn Arnarsson skrifar
Tvær kísilverksmiðjur verða starfræktar í Helguvík ef áform ganga eftir.
Tvær kísilverksmiðjur verða starfræktar í Helguvík ef áform ganga eftir. vísir/GVA
Samgöngustofa hefur áhyggjur af því að útblástur úr fyrirhugaðri verksmiðju Thorsil geti haft áhrif á aðflug flugvéla að Keflavíkurflugvelli. Sendi Samgöngustofa athugasemd til Umhverfisstofnunar en tekið er nú fyrir öðru sinni hvort Thorsil fái starfsleyfi fyrir verksmiðju sína.

Athugasemd samgöngustofu snertir samþykki á notkun svokallaðra neyðarskorsteina sem notaðir eru framhjá síum og mengunarvörnum. Bent var á svipað atvik á Grundartanga. „Við þessar aðstæður kæmust út agnir sem væru ekki ósvipaðar ösku og sem gætu haft áhrif á hreyfla flugvéla,“ segir í athugasemd Samgöngustofu. Óskaði stofnunin eftir að Umhverfisstofnun kannaði hvort þessi áhrif hefðu verið skoðuð með starfsemi á Keflavíkurflugvelli til hliðsjónar.

Þórhildur Elínardóttir upplýsingafulltrúi
Þær ströngu reglur sem settar eru um aðflug flugvéla snúast hins vegar ekki um mengun. „Hvað aðflugsferla varðar, þá gilda um þá strangar reglur sem settar eru af Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og Samgöngustofa hefur eftirlit með að sé framfylgt. Þær reglur snúast að miklu leyti um getu loftfarsins til aðflugs og lendingar en ná ekki til mengunarmála,“ segir Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.

Verkfræðistofan Mannvit vann að umhverfismati Thorsil á sínum tíma. Sama verkfræðistofa mun hanna nýja verksmiðju Thorsil. Umhverfisstofnun mun líklega ljúka við þá vinnu innan nokkurra daga og veita Thorsil starfsleyfi.

Svar Mannvits gefur til kynna að þeir gefi lítið fyrir athugasemd Samgöngustofu og telja þær rykagnir sem færu út um neyðarskorsteina ekki hafa áhrif á þotuhreyfla. „Í ljósi þess litla magns af ryki sem er þarna á ferðinni, mikillar þynningar þess og í ljósi efnisgerðar ryksins er ekki tilefni til að ætla að umrætt ryk hafi meiri hættu í för með sér fyrir flugumferð en almennt ryk sem er á ferðinni í andrúmsloftinu á þessu svæði,“ segir í svari Mannvits.

Björt Ólafsdóttir sagði í viðtali við fréttablaðið, stuttu eftir að hún settist í stól umhverfisráðherra, að tímar mengandi stóriðju væru liðnir.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×