Viðskipti innlent

Neytendur ekki bjartsýnni síðan fyrir hrunið 2008

Væntingar neytenda halda áfram að glæðast ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var um hádegisbilið í gær. Væntingavísitalan hækkar nú um 6 stig og er vísitalan nú 67,1 stig sem er það hæsta sem hún hefur verið frá því fyrir hrun.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að eins og kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir. Vísitalan hefur nú verið undir 100 stigum samfellt síðan í febrúar 2008.

Væntingavísitalan hefur hins vegar hækkað samfellt undanfarna 4 mánuði sem er til vísbendingar um það að léttara sé nú yfir landsmönnum og að þeir séu sífellt að verða vissari um að það versta sé afstaðið og framundan sé bjartari tíð en margt bendir nú til þess að botninum í þessari kreppu sé náð. Þannig hefur staða vinnumarkaðarins færst til betri vegar undanfarið, verðbólgan hjaðnað, krónan styrkst, vextir lækkað og kaupmáttur launa aukist. Þá er farinn að mælast hagvöxtur aftur.

Allar undirvísitölur væntingavísitölunnar hækkuðu á milli júní og júlí síðastliðins. Undirvísitölurnar eiga það sameiginlegt að hafa ekki verið hærri frá hruni. Í fyrsta sinn síðan vorið 2008 mælast væntingar til aðstæðna í efnahags- og atvinnumálum að hálfu ári liðnu yfir 100 stigum sem þýðir að fleiri séu bjartsýnir en svartsýnir.

Mat landsmanna á núverandi aðstæðum í efnahags-og atvinnumálum er mun slakara en vísitala fyrir það mat er nú aðeins 14,6 stig og hefur hún hækkað um 4,2 stig frá fyrri mánuði. Það vantar því enn töluvert upp á að landsmenn séu jafn vongóðir um núverandi ástand og framtíð. Mat á núverandi ástandi er engu að síður mun skárra nú en fyrir ári síðan þegar vísitalan var 6,6 stig.

Karlar eru eftir sem áður bjartsýnni en konur og yngri kynslóðin er bjartsýnni en sú eldri. Frá fyrri mánuði hefur bjartsýni þeirra sem eru með meiri menntun og hærri tekjur aukist mun meira en þeirra sem hafa lægstu tekjurnar og minnstu menntunina.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×