Innlent

Ómögulegt að gera tilkall til Óskarsverðlauna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson tók á móti undirskriftum frá á fjórða tug þúsunda manna í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson tók á móti undirskriftum frá á fjórða tug þúsunda manna í dag. mynd/ anton.
„Sorrý Ólafur, Jean Dujardin fékk Óskarinn fyrir besta leikinn og Woody Allen fyrir besta handritið. Þú getur hætt að reyna," segir Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og stjórnlagaráðsfulltrúi, um málflutning Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag.

Eins og fram hefur komið ákvað forsetinn í dag að taka sér nokkurra daga frest til að ákveða hvernig hann ætti að bregðast við rúmlega 30 þúsund undirskriftum fólks sem skorar á forsetann að halda áfram í embætti. Hann sagðist í dag hafa verið búinn að ákveða að hætta. Hann hafi tilkynnt þá ákvörðun í nýársávarpinu og rökstutt það vel. En nú ætlaði hann að hugsa málið á ný.

Viðbrögð almennings við þessa afstöðu forsetans hafa ekki látið á sér standa. „Þessi blaðamannafundur samanstóð af eintómum öfugmælaræðum af hálfu forsetans," segir Andrés Jónsson, almannatengill og samfylkingarmaður, á fésbókarsíðu sinni.

Sjálfur neitaði forsetinn því á blaðamannafundi í dag að atburðarrásin frá því að hann hélt áramótaávarpið sitt hafi verið eitthvað leikrit. „Þannig að það er alveg sama hvernig málið er skoðað. Það liggur allt þannig að það það var mín einlæga ósk og allra í fjölskyldunni að þjóðin myndi finna sér aðra vegferð á þessum tímamótum en að ég yrði áfram í þessu embætti," sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×