Innlent

Opnunartími Bláfjalla verður framlengdur

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Útlit er fyrir aukaopnun í Bláfjöllum um helgina.
Útlit er fyrir aukaopnun í Bláfjöllum um helgina. Mynd/Anton
Útlit er fyrir aukaopnun í Bláfjöllum um helgina þar sem fjöllin eru enn þá snævi þakin.

„Það er snjór eins og um miðjan vetur og verði bongóblíða er ekkert því til fyrirstöðu að hafa opið örlítið lengur,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri Bláfjalla.

Venju samkvæmt ættu skíðasvæðin að loka 1. maí. Opinber lokunarhelgi var því um síðustu helgi, en gekk ekki nógu vel að sögn Einars sökum veðurs.

„Þetta var frekar snubbótt lokahelgi. Veðrið var ekki nógu gott og okkur fannst það engan veginn fullnægjandi að loka með þessum hætti. Við tókum því ákvörðun um að ef það yrði næturfrost í vikunni þá yrði lokuninni frestað. Við fögnum því að sjálfsögðu að hér sé enn þá vetur,“ segir hann.

Mögulegt er að lokunin eftir helgina sé ekki alveg endanleg. Til stendur að halda brettadag líkt og gert var í fyrra. „Við höfðum hann um miðjan mánuðinn og þá mættu mjög margir. Það var diskótekari í fjallinu, við gerðum palla og það var heilmikið fjör.“

Samkvæmt núgildandi veðurspá fyrir helgina er útlit fyrir ágætisveður með snjókomu eða rigningu á köflum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×