Viðskipti innlent

Par með barn í tíu ár að safna fyrir fyrstu íbúðinni

Magnús Halldórsson skrifar
Sé mið tekið af upplýsingum frá Hagstofunni og velferðarráðuneytinu tekur það ungt par með eitt barn um tíu ár að safna fyrir útborgun vegna kaupa á 20 milljóna króna íbúð.

Tökum dæmi af ungu pari, með eitt barn, sem er nýkomið úr háskólanámi. Samkvæmt opinberum neysluviðmiðum eru útgjöldin ríflega 500 þúsund krónur á mánuði, með öllu. Ýmsar tölur innan þessa mats eru þó umdeilanlegar, t.d. er húsnæðiskostnaður fyrir 120 fermetra íbúð umtalsvert meiri á markaði en neysluviðmiðin gera ráð fyrir.

Á sama hátt má gera ráð fyrir að ungt fólk, með lítið sem ekkert sparifé milli handanna, eyði minna í almenna neyslu og tómstundir viðmiðin gera ráð fyrir. Í þessu dæmi er kostnaðurinn við þess tvo þætti skorinn niður um 50 prósent.

Þá er heildarkostnaðurinn ríflega 450 þúsund.

Út frá gögnum Hagstofu Íslands má gera ráð fyrir að byrjunarheildarlaun fólksins sem nýkomið er úr námi séu samtals 663 þúsund, að meðaltali.

Að teknu tillliti til frádráttar, skatta og annarra gjalda, sitja eftir um 487.320, í besta falli.

Mánaðarlegur sparnaður, samkvæmt þessu dæmi, er því tæplega 35 þúsund krónur.

Fyrir íbúð sem kostar 20 milljónir á markaði, sem er hóflegt verð fyrir dæmigerð fyrstuíbúðarkaup, þarf parið að safna fjórum milljónum króna, miðað við hefðbundin skilyrði fyrir lánafyrirgreiðslu, eða 80% af kaupverði. Það tekur um tíu ár, miðað við fyrrnefndar forsendur, að safna þeirri upphæð.

Samkvæmt sérfræðingum sem fréttastofa hefur rætt við innan fjármálageirans, er algengt nú um stundir að ungt fólk fái lán fyrir foreldrum eða öðru venslafólki fyrir því sem upp á vantar þegar lán er tekið. Einfaldlega vegna þess, að langan tíma tekur að safna upp nægu lausu fé frá grunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×