Innlent

Ræða Sigríðar Maríu hitti í mark

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sigríður talaði meðal annars um mikilvægi menntunar ungra stúlkna í ræðunni.
Sigríður talaði meðal annars um mikilvægi menntunar ungra stúlkna í ræðunni. mynd/skjáskot
Hin 19 ára gamla Sigríður María Egilsdóttir flutti ræðu á 100 Women, ráðstefnu BBC um framtíðarmarkmið kvenna, en hún var síðasti ræðumaður dagsins. Ræðan vakti athygli og hlaut Sigríður lof fyrir hana.

Sigríður talaði um mikilvægi menntunar ungra stúlkna í ræðunni og sagði frá ömmu sinni sem fæddist á Kanaríeyjum, sem langaði að læra lyflækningar á Bretlandseyjum en þurfti að fá undirskrift foreldra til þess að mega fara af landi brott. Þegar hún bar upp erindið við föður sinn uppskar hún löðrung og var sagt að hún hefði allt sem hún þyrfti heima fyrir og ef það væri ekki nóg gæti hún alltaf gift sig. Hún fékk hins vegar undirskrift móður sinnar og flutti af landi brott og lærði hjúkrunarfræði í Englandi.

Sigríður segir menntun lykilinn að sjálfstæði og hvað taki við að henni lokinni sé ekki aðalatriðið.

„Kostir menntunar eru endalausir. Menntaðar konur eiga færri en heilbrigðari börn,“ sagði Sigríður og bætti því við að samkeppnishæfi þjóðar á alþjóðavettvangi velti að hluta til á því hve vel þjóðin nýtir krafta kvenna, sem mynda helming þjóðarinnar.

Sjá má ræðu Sigríðar í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×