Innlent

Reyndi að draga dreng inn í bíl sinn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi. Vísir/GVA
Ókunnugur maður reyndi að draga dreng inn í bíl sinn í Þorlákshöfn í dag. Lögreglan á Suðurlandi staðfesti í samtali við Vísi að málið sé til rannsóknar. Rætt hefur verið við drenginn og móður hans. Ekki er vitað hver maðurinn er og hann fannst ekki þrátt fyrir eftirgrenslan lögreglu. 

Í Facebook hópnum „Íbúar í Þorlákshöfn“ segir móðir drengsins frá því að sonur hennar hafi verið að ganga eftir göngustíg í bænum þegar maður kom úr bílnum sínum, þreif í hann og sagðist ætla að fara með hann heim til sín í Reykjavík. Drengurinn náði að losa sig og hefur atvikið verið tilkynnt til lögreglu. Þetta kemur fram á vef Hafnarfrétta.

Í hópnum hefur skapast töluverð umræða um málið og í  athugasemdum við færsluna kemur fram að um þrjú tilvik sé að ræða sem upp hafa komið síðustu daga. Lögreglan á Suðurlandi hefur þó ekki staðfest að um önnur tilvik sé að ræða.

Svipað mál er nú til rannsóknar hjá lögreglunni á Höfuðborgararsvæðinu eftir að maður reyndi að tæla níu ára dreng í bíl sinn í Kópavogi í síðustu viku. Drengurinn var á leiðinni í Snælandsskóla og brást einnig hárrétt við. Hann hljóp í skólann og málið var tilkynnt til lögreglu. 

Því máli svipar mikið til tælingar frá árinu 2004 þegar níu ára gömul stúlka fannst köld og hrakin á Mosfellsheiði, við afleggjarann hjá Skálafelli. Bílstjóri hafði tekið hana upp í bílinn í Kópavogi en skildi hana svo eftir á fyrrnefndum stað eftir að hafa fest bílinn sinn.


Tengdar fréttir

Tilkynnt um 40 til 50 tælingar árlega

Árið 2014 bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 58 tilkynningar um að reynt hafi verið að lokka barn upp í bíl. Framkvæmdastjóri Heimilis og skóla hvetur foreldra til að taka samtalið um ókunnuga sem reyna að tæla börn í bíla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×