Viðskipti innlent

Ríkissjóður verður af milljörðum

JMG skrifar
Ríkissjóður verður af milljörðum króna vegna kostnaðar bankanna af gengislánadómi Hæstaréttar. Samkvæmt ársreikningum tveggja stóru bankanna er lækkaður tekjuskattur yfir tíu milljarðar króna.

Arion Banki gaf út ársreikning sinn á fimmtudaginn, samkvæmt honum var afkoma bankans jákvæð um rúma ellefu milljarða á árinu 2011. Landsbankinn fylgdi í kjölfarið með ársreikning sinn í gær og nam hagnaður hans 16,9 milljörðum.

Dómur hæstaréttar frá 15. febrúar síðastliðnum setur hins vegar umtalsvert skarð í reikninga bankanna, en þeir hafa nú áætlað kostnað við endurútreikninga lána vegna dómsins með hliðsjón af sviðsmyndum Fjármálaeftirlitsins. Þó svo að dómur Hæstaréttar hafi verið góðar fréttir fyrir bókhald margra heimila í landinu hefur hann umtalsvert áhrif á bókhald ríkisins því lækkun hagnaðar hjá bönkunum þýðir lægri tekjur ríkissjóðs í formi skatta.

Þannig gerir Arion Banki ráð fyrir að kostnaður hans vegna dómsins sé 13,8 milljarðar króna og lækkar því tekjuskattur bankans um 2,8 milljarða króna.

Upphæðin er umtalsvert hærri hjá Landsbankanum þar sem kostnaður hans vegna dómsins er tæpir 39 milljarðar króna og lækkar því tekjuskattur hans um 7,6 milljarða króna.

Samtals mun ríkissjóðir því verða af um meira en tíu milljörðurm króna í skatttekjur en til samanburðar er það jafn mikið og ríkið leggur í rekstur Háskóla Íslands á einu ári.

Ekki er þó um endanlegan útreikning á kostnaði vegna lánanna að ræða, þar sem enn er þörf á fleiri dómum til að skera endanlega úr um fordæmisgildi Hæstaréttardómsins. Það kann því að vera að niðurstaðan breytist og mun munurinn þá verða tekjufærður í næsta ársreikningi bankanna.Það er hins vegar ljóst ríkið verður af milljarða tekjum vegna ólögmætra gengislána.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×