Skoðun

Rusl

Trausti Dagsson skrifar
Í apríl árið 2010 gekk ég ásamt tveimur félögum mínum – og reyndar stórum hluta þjóðarinnar – upp á Fimmvörðuháls. Verðlaunin fyrir afrekið voru stórkostleg, eldrautt glóandi hraunið bauð okkur velkomna þar sem það spýttist tugi metra upp í loftið með undarlegu hljóði, þungu hvæsi skepnunnar sem lúrði undir fjallinu. Að standa þarna innan um mannfjöldann, með þyrlumergð á áætlunarflugi yfir okkur og hóp af jeppum sem komu keyrandi ofan af Mýrdalsjökli, var stórkostleg upplifun. Það var eins og Íslendingar hefðu loksins fundið hinn sanna tilgang með öllum þessum fjallaferðum, jeppum og útivistarþrá, að sjá náttúruna eins óbeislaða, hreina og skapandi og völ er á.

Á leiðinni upp á hálsinn var kærkomið að staldra við í litlum skála, setjast í þrengslunum á gólfið og borða nestið sitt. Þar fór ég að hugsa um tenginguna sem við höfum við umhverfi okkar og grun minn um að við séum stundum að missa hana, að minnsta kosti held ég að hún eigi það til að dofna. Þegar við komum inn í nýtt og framandi umhverfi þá hættir okkur kannski til að finnast eins og hin sjálfsögðu þægindi eigi að fylgja okkur en þetta nýja samhengi getur líka gefið okkur framandgerða mynd af lífi okkar.

Inni í skálanum var langt borð með bekkjum hvorum sínum megin og þar settust þeir sem komust þar fyrir en hinir, þar á meðal við, létu sér gólfið nægja. Við tókum eftir því að tvær ungar konur sem höfðu nýlokið við að borða samlokur, drekka ávaxtasafa úr fernum og kannski fá sér súkkulaðistykki, litu í kringum sig þar til önnur sagði við hina: „Er ekkert rusl hérna?“ Hin svaraði: „Nei, ég held ekki, við verðum bara að skilja þetta eftir,“ og að því sögðu stóðu þær upp og gengu út.

Rusl er ekki bara rusl, það þarf að „verða“ að rusli, það þarf að lenda á nýjum stað og í nýju samhengi. Ruslið sem þær skildu eftir varð aldrei að rusli fyrr en það hætti að þjóna tilgangi sínum sem umbúðir, eftir að því hlutverki lauk var fyrst hægt að kalla það rusl og þá virtist sem það væri ekki lengur á ábyrgð þeirra. Það kaldhæðnislega var að það var vera þeirra í skálanum sem skapaði ruslið, þær bjuggu það til en það sem þær virtust ekki átta sig á var að um ruslið giltu aðrar reglur um en niðri á jafnsléttu. Þarna var enginn sérstakur staður ætlaður því þaðan sem einhver ósýnileg hönd – borgarstarfsmaður í gulu vesti, ruslabíll eða húsvörður – myndi fjarlægja það og koma því þannig formlega í burtu á einhvern óskilgreindan og fjarlægan stað. Þess vegna varð það eftir á borðinu á meðan þær héldu áfram í átt að eldgosinu, að skoða náttúruna óbeislaða, tryllta og „hreina“.

Um daginn ætlaði ég að fara upp á þriðju hæð í Odda, einu af fjölmörgum húsum Háskóla Íslands, til að lesa. Þegar ég kom þangað blöstu skilaboðin „lokað vegna slæmrar umgengni, opnað aftur að loknum þrifum“ við mér. Ég leit snöggt yfir salinn þar sem nokkrir tómir snakkpokar lágu hér og þar innan um borð og stóla, flöskur voru á borðum og neytendurnir víðs fjarri. Þreyttir nemendur eftir langa leshelgi höfðu greinilega ekki haft rænu á að taka til eftir sig.

Í runnunum í kringum Stúdentagarðana er rusl úti um allt, í runnunum á leikskólanum hinum megin við bílastæðið okkar, þar sem við fjölskyldan leikum okkur gjarnan saman, þar er allt fullt af rusli. Þar sá ég til dæmis gólfmottu sem sennilega hefur fokið ofan af svölum, bjórdósir, plast og aftur plast og pitsukassa. Eignir okkar eru afstæðar, við förum langan veg eftir einhverju sem glatast en leyfum öðru að hverfa án minnstu ummerkja um eftirsjá. Vindurinn gerir okkur eignalaus. Hvert sem ég fer, þar get ég fundið rusl. Ég lít út um gluggann og sé rusl, ég stoppa á veginum sem liggur upp í Bláfjöll og geng út í hraunið og sé fullt af rusli. Uppi við Langjökul, langt úr alfaraleið, fann ég kókómjólkurfernu.

Á hverjum degi kaupi ég ótrúlega mikið rusl, ég á oft erfitt með annað þrátt fyrir að ég myndi glaður geta sloppið við það. Ég kaupi skyrdrykk í plastdollu sem gæti enst í heilt ár og þjónað sama tilgangi og plastglas úr IKEA gerir. Við kaupum ís í plastdollu sem gæti vel komið í staðinn fyrir Tupperware-plastdall í langflestum tilfellum. Við erum sífellt að henda hlutum sem við kaupum dýrum dómum í öðru samhengi. Á sama tíma eru gríðarstórir flekkir í Kyrrahafi myndaðir úr plastrusli og ruslahaugar New York-borgar hafa fengið þann vafasama titil að vera eitt af stærstu mannvirkjum í heimi.

Jón Gnarr segist gjarnan taka með sér plastpoka þegar hann fer í göngutúra og fyllir þá af rusli sem verður á vegi hans. Það er frábært framtak sem mætti taka til fyrirmyndar en ekki lausn í sjálfu sér. Lausnin felst heldur ekki að öllu leyti í því að henda minna af rusli á víðavangi eða fjölga ruslatunnum heldur hlýtur vandinn að stórum hluta að felast í neysluháttum okkar, öllu ruslinu sem við kaupum á hverjum degi, öllu sem er framleitt svo hægt sé að henda því. Hlutir verða til í Asíu, ferðast til Evrópu, enda á Íslandi þar sem þeir eru notaðir í örskamma stund áður en þeir breytast í rusl. Mörg hundruð manns, jafnvel þúsundir, taka þátt í þessu ferli. Námuverkamenn, eigendur fyrirtækja, fólkið í verksmiðjunum, skipstjórar, flugmenn, bílstjórar, sölumenn, markaðsfulltrúar, bókarar, neytandinn, borgarstarfsmaðurinn og svo allir þeir sem í framtíðinni þurfa að eiga við ruslið, hvaða formi sem það verður í þá.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×