Innlent

Síauknar vinsældir Skipstjórnarskólans

Þorgils Jónsson skrifar
Aðsókn að Skipstjórnarskólanum hefur aukist stórum síðustu ár.
Aðsókn að Skipstjórnarskólanum hefur aukist stórum síðustu ár. fréttablaðið/hari
Aðsókn að Skipstjórnarskóla Tækniskólans hefur verið með slíkum ágætum síðustu árin að vart er hægt að bæta við í bili. Skólastjóri segir stöðuga eftirspurn eftir skipstjórnarmenntuðu fólki.

„Aðsóknin hefur verið nokkuð stöðug og góð síðustu ár og fjölgun, sérstaklega í dreifnáminu,“ segir Vilbergur Magni Óskarsson, skólastjóri Skipstjórnarskóla Tækniskólans, í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurður segir Vilbergur að bæði séu að koma inn nýir nemendur og gamlir að snúa aftur.

„Nýir nemendur eru að sækja sér réttindi og flestir þeirra stefna að því að klára þau öll. Svo erum við líka með mikið af nemendum sem eru að koma aftur, jafnvel eftir langan tíma, til að bæta við sig réttindum.“

Vilbergur segir erfitt að gefa sér mikið um ákveðna tilhneigingu í náminu.

„En það eru að koma inn menn með gamla fiskimannaprófið og sækja sér farmannaréttindi. Sérstaklega ef þeir eru að sigla á stærri fiskiskipum til útlanda og þurfa aukin réttindi þess vegna. Svo eru sumir að skipta um vettvang og fara yfir í farmennsku. Það er allt til í þessu.“

Með 242 nemendur, þar af 103 í dagskóla, segir hann erfitt að bæta við nemendum.

„Ég hugsa að við eigum ekki að óbreyttu auðvelt með að taka á móti fleiri nemendum, bæði er það aðstaðan, sérstaklega fyrir verklegu kennsluna, og svo eru það kennarar, en það er ekki fleirum til að dreifa sem stendur.“

Aðspurður hvort mikil eftirspurn sé eftir útskriftarnemendum úr skólanum segir Vilbergur að svo sé.

„Það hefur í sjálfu sér ekki verið gerð nein sérstök greining á þörfinni fyrir skipstjórnarfólk hér á Íslandi, nú eða í framtíðinni, en það er alltaf nokkur endurnýjunarþörf, auk þess sem margir sækja sér réttindi og fara svo utan til að vinna. Ég get ekki betur sér en að þeir sem við útskrifum fái allir vinnu.“

Sigurður Friðfinnsson.
Stúdentsprófið heillaði

Sigurður Friðfinnsson er að hefja sinn þriðja vetur í Skipstjórnarskólanum. Hann sagði að það hefði blundaði í honum að fara í skólann áður en hann lét slag standa.

„Ég var búinn að vera í landi í nokkur ár áður en ég ákvað að drífa mig í námið. Það var ýmislegt sem heillaði við þetta, meðal annars að þegar ég klára öll réttindin útskrifast ég líka með stúdentspróf.“

Aðspurður um hvað taki við að námi loknu segir Sigurður að hann stefni að því að fara á sjóinn.

„En svo er líka möguleiki á því að fara í sjávarútvegsfræði í framhaldinu, mögulega í fjarnámi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×