Skoðun

Skólastarf í kristna landinu Íslandi

Ragnar K. Gestsson skrifar
Mig langar að þakka Dögg Harðardóttur fyrir ágæta grein hinn 21. júní sl. Þar fjallar hún um þær tillögur mannréttindaráðs að loka aðgengi trúarsamfélaga að skólum Reykjavíkurborgar. Þetta er merkilegt mál þar sem mannréttindaráð ætlar að taka skref í átt frá stjórnarskrárbundnum rétti Íslendinga og ýmsar blikur eru á lofti að samsteypuborgarstjórn Besta (?) flokksins og Samfylkingar ætli sér að fara þá leið.

Þessu vil ég mótmæla harðlega. Ég fæ ekki með nokkru móti séð að það sé hlutverk mannréttindaráðs að gerilsneyða skólastarf á Íslandi. Því fyrst mannréttindaráð vill stíga þetta fyrsta skref frá þeim sjálfsögðu mannréttindum að njóta uppfræðslu í trúarlegu starfi í landi þar sem þjóðkirkja er kristin, er mjög líklegt að í næstu skrefum verði höggvið í sama knérunn.

Það rísa upp með reglulegu millibili trúleysihópar sem láta hátt, tala digurbarkalega um hættuna sem Jesúbarnið skapar fyrir önnur börn og heimta að skólastarf sé lagað að kröfum þeirra. Fréttir af syndugu líferni kristinna einstaklinga hafa síðan því miður verið olía á eld þessara hópa. En afbrot þeirra rýra á engan hátt þann fagnaðarboðskap sem Biblían færir okkur.

Því megum við ekki láta þetta yfir okkur ganga. Verum óhrædd við að stíga fram og láta skoðanir okkar í ljós. Látum ekki minnihlutahópunum eftir skoðanamyndandi umræðu heldur „berjumst“ fyrir börnunum okkar og skólunum þeirra. Og leyfum þessum röddum að berast inn í skólana. Látum skólastarf verða grundvöll fyrir skoðanaskipti um gæði hluta, hugsunar og skoðana og brýnum fyrir börnunum okkar gagnrýna hugsun. Við viljum ekki ala upp kynslóðir sem vegna ofverndar og mötunar hafa hvorki getu til að hugsa sjálfstæða hugsun né taka sjálfstæða ákvörðun. Ólíkt mannréttindaráði treysti ég íslensku börnum okkar til að taka upplýsta ákvörðun með foreldrum sínum hvort heldur þau vilja ganga í skátana, tilheyra kristinni kirkju eða stunda íþróttir.

Ég vil síðan líka hvetja kristið fólk til að láta nú loksins í sér heyra, látum ekki ræna okkur þeim áfangasigrum sem 1.000 ára kristni í landinu hefur fært okkur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×