Viðskipti innlent

Spá 17% aukningu í íbúðasölu á þessu ári

Íbúðafjárfesting dróst saman um 17% árið 2010, en árið 2011 er reiknað með 17% vexti og gert er ráð fyrir talsverðum vexti út spátímann. Þó er ekki um mikla fjármuni að tefla framan af vegna þess hve lítil íbúðafjárfesting er.

Þetta kemur fram í þjóðhagspá Hagstofunnar. Þar segir að átaksverkefni ríkisins Allir vinna, sem felur í sér fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað árin 2011 og 2012, auk skattaívilnunar vegna vinnu sem framkvæmd er á byggingarstað árið 2011, er hvatning til íbúðafjárfestingar. Ríkisstjórnin hefur gefið í skyn í tengslum við gerð kjarasamninga að þetta átak verði framlengt.

Velta á fasteignamarkaði hefur vaxið nokkuð stöðugt þó að enn sé hún langt frá því sem mest varð árið 2007, en veltan nær varla því stigi á næstu árum. Hlutur makaskiptasamninga í sölusamningum heldur áfram að lækka sem bendir til skilvirkari markaðar.

„Verð hefur styrkst eitthvað það sem af er ári, en raunverð hefur enn ekki hækkað. Ekki er gert ráð fyrir að íbúðaverð hækki að ráði umfram verðlag framan af spátímanum, en gert er ráð fyrir lítilsháttar raunhækkun í lok hans. Landsmönnum verður þá væntanlega aftur farið að fjölga sem ætla má að auki eftirspurn eftir fasteignum. Haldi fasteignamarkaðurinn áfram að styrkjast gæti þessi spá reynst of íhaldssöm,“ segir í þjóðhagsspá Hagstofunnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×