Innlent

Þenkjandi róttæklingar boða til skólahalds

Viðar Þorsteinsson
Viðar Þorsteinsson Mynd/Anna Gunnarsdóttir
Róttæki sumarháskólinn er nýr og nokkuð óvenjulegur skóli sem tekur tímabundið til starfa í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar við Hringbraut í næsta mánuði. Óhætt er að segja að skólinn beri nafn með rentu þar sem barátta fyrir efnahagslegu réttlæti, femínisma, lýðræði og réttindum minnihlutahópa er á stefnuskránni.

Að sögn Viðars Þorsteinssonar, kennara við skólann, verður námið ekki eingöngu af bóklegum toga heldur er leitast við að tengja saman róttæka hugmyndafræði og aðgerðir. „Við sem að skólanum stöndum höfum kynnst í gegnum nám eða aktívisma og erum þarna hugsjónafólk í sjálfboðavinnu sem telur að gera þurfi róttækar breytingar til að koma á jöfnuði í samfélaginu. Okkar von er sú að með því að vekja nemendur skólans til vitundar um innviði þjóðfélagsins náum við í leiðinni að breyta viðhorfi þeirra og virkja þá til þátttöku í baráttu fyrir jöfnuði; að námið verði hvati að niðurrifi og uppbyggingu. Enda nauðsynlegt að skilja þjóðfélagið til að geta stundað pólitík."

Viðar segir skólann vera opinn og lýðræðislegan vettvang þar sem fólk úr öllum þjóðfélagsþrepum getur komið, fræðst, skoðað og rætt saman á gagnrýninn og róttækan hátt um íslenskt samfélag og valdastrúktúra þess. Hann tekur fram að viðfangsefnið verði jafnframt hægt að nálgast út frá ýmsum fræðilegum sjónarmiðum, femínisma, anarkisma og marxisma þar á meðal.

„Eða allt eftir því hvort viðkomandi hefur áhuga á að skoða hvernig konur eru kúgaðar af feðraveldinu eða hvernig kynþáttahyggja birtist í stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda svo dæmi séu tekin," segir Viðar, sem ætlar sjálfur að taka fyrir helstu atriði í gagnrýni Karls Marx og Friedrichs Engels á kapítalískt hagkerfi. „Enda virðast þessar hugmyndir enn eiga fullt erindi þar sem hér hafa litlar breytingar orðið hvað sem hruni og eftirhreytum þess líður."

Hvernig fer kennslan fram? „Námskeiðin eru sett saman úr námsstofum sem að jafnaði hafa hver sinn umsjónarmann," lýsir Viðar. „Eitt námskeið getur þannig verið sett saman úr tveimur eða þremur námsstofum í umsjón ólíkra einstaklinga og þeim raðað saman eftir skyldleika umfjöllunarefna. Engin krafa er gerð um að einstaklingur sitji allar námsstofur í hverju námskeiði og er hverri skipt upp í fyrirlestra og umræður eftir hentugleikum."

Skólinn verður starfræktur dagana 13. - 18. ágúst. Þátttökugjalds og menntunar er ekki krafist. Hægt er að skrá sig í skólann á Facebook eða með því að senda tölvupóst á sumarhaskolinn@gmail.com. Nánar á sumarhaskolinn.perspiredbyiceland.com.

roald@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×